140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:32]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera mitt besta til að svara þeim fjölmörgu spurningum sem til mín er varpað.

Fyrst varðandi umsagnirnar. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, hún skrifaði ekki 225 umsagnir, en hversu margar umsagnir koma fram með nýjar upplýsingar? Er allt það sem er að koma fram núna í þessum 225 umsögnum eitthvað nýtt sem í gegnum þetta 11 ára tímabil, sem málið er búið að vera í vinnslu, hefur ekki komið fram? Ég leyfi mér að svara því neitandi. Það er það sem ég er að tala um að á einhverjum tímapunkti verðum við að stoppa og taka ákvörðun vegna þess að margt af því sem þarna hefur komið fram hefur verið margrætt og skoðað ítarlega af hálfu verkefnisstjórnarinnar, einstakra faghópa og þeirra fagaðila sem gerst þekkja til. Með fullri virðingu fyrir hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. umhverfisráðherra held ég að þeir einstaklingar sem unnu þetta starf í gegnum áranna rás séu með meiri fagþekkingu en þessir tveir ráðherrar.

Það er búið að — bíðum nú við, hvað var ég að hugsa hér? — Já, það er varað við hlutum sem búið er að fjalla um í gegnum þessa vinnu.

Varðandi Búðarháls, hvað tefur? Ég get algjörlega fallist á að það hefur ekki bara verið orkustefna ríkisstjórnarinnar sem hefur tafið, heldur hafa verið vandkvæði með fjármögnun. En eins og ég nefndi í síðasta andsvari — stór hluti vandræðanna við fjármögnun og við það að fá erlend sem innlend fyrirtæki til að fjárfesta hér á landi núna er vegna þess að hér er ríkisstjórn sem vílar ekki fyrir sér að grípa inn í gerða samninga og hótar þjóðnýtingu á fyrirtækjum ef málin ganga ekki upp eftir þeim leikreglum sem settar eru á undan. Það er líka og ein helsta (Forseti hringir.) ástæða þess, vil ég leyfa mér að segja, að illa hefur gengið að ljúka fjármögnun á þessu.