140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:34]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er gott að þingmenn eru þó alltént byrjaðir að viðurkenna það að þetta snýst fyrst og síðast um fjármögnunarvandræði (Gripið fram í.) sem ég vil leyfa mér að fullyrða að séu að þó nokkru leyti líka arfleifð fyrri stjórnarhátta, en nóg um það.

Mig langar að spyrja aftur og ítreka spurningu mína um hin meintu pólitísku afskipti og fagmennskuna. Er það skoðun hv. þingmanns að það hefði verið hin faglega niðurstaða ef engu hefði verið breytt frá niðurstöðum verkefnisstjórnar eða þess hóps sem þar fór fram um flokkunina? Er það hin faglega niðurstaða, því að þannig hef ég skilið þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks? Mér finnst mjög mikilvægt að þetta atriði komi fram.

Varðandi skipulagsmálin er þar ýmislegt sem er umhugsunarefni vegna þess að hv. þingmaður sagði að það væri að sjálfsögðu ekki þannig að þau svæði sem færu í orkunýtingarflokk yrðu sjálfkrafa virkjuð. Þá vil ég benda hv. þingmanni á að samkvæmt 7. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun er sveitarstjórnum gert skylt að samræma áætlanir sínar niðurstöðum rammaáætlunar. Þetta vekur auðvitað ýmsar spurningar um skipulagsvaldið og lýðræðislega aðkomu fólks að þessum efnum og líka einmitt spurningar um hvort hér sé verið að fyrirskipa að það eigi að virkja. Vildi bara vekja athygli hv. þingmanns á þessu og fá viðbrögð við nákvæmlega þessum atriðum vegna þess að hún kom inn á þau.

Svo að lokum þetta. Hvað telur hv. þingmaður að hefði verið hið eðlilega ferli, þ.e. ferli sem að mati hv. þingmanns hefði ekki verið með afskipti pólitíkur þegar við lítum til þess að það var jú ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem skipaði þessa verkefnisstjórn? Hér hafa ýmis nöfn (Forseti hringir.) verið nefnd og þá aðallega eitt. En hvar byrjar hin pólitísku afskipti ef það var í tíð fyrri ríkisstjórnar sem umrædd (Forseti hringir.) verkefnisstjórn var skipuð?