140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að það verði illa komið fyrir Íslendingum efnahagslega þegar við virkjum Gullfoss, mjög illa. Auðvitað getur sú staða komið upp ef menn halda illa á efnahagsmálum, en ég vona að það verði aldrei.

Það sem ég var að ræða eru virkjanir sem faglega séð er skynsamlegt að fara í. Það sem ég leyfði mér að gera var að skoða málin á heimsvísu. Í Kína er kolarykið og mengunin að fara með allt í voða, pólarsvæðin eru að hlýna og það er staða sem mér stendur ógn af. Það sem ég benti á var að það gæti orðið krafa umhverfisverndarsinna um allan heim að við virkjuðum þessa hreinu orku sem við eigum hérna ómengaða. Orka sem ekki mengar, til að minnka álagið í þeim löndum þar sem mengunin er mest. Það er þetta sem ég er að tala um. Það getur vel verið að einhver Kínverji sem býr við mikla mengun í sínu heimalandi, við kolaryk og ég veit ekki hvað, vilji virkja Gullfoss en ég mun standa gegn því.

Það getur nefnilega verið að heimshlýnunin leiði mannkynið í þá neyðarstöðu að við verðum fyrir miklum þrýstingi að virkja hér meira. Þess vegna er mjög mikilvægt að það sem við gerum sé gert á faglegum nótum en ekki með einhverjum pólitískum þrýstingi.