140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Mér líkar það miður að vera sagður með rörsýn, það segir að ég sé þröngsýnn. Ég er einmitt að líta á málið mjög heildstætt út frá heimshagsmunum. Það hafa ekki margir gert í þessari umræðu. Ég lít á að það vantar hreina orku í heiminum. Það er verið að brenna óhemju- og sívaxandi magni af olíu, gasi og kolum sem eru mjög verðmæt lífræn efni sem aldrei koma aftur eða mjög seint, á þúsundum ára, auk þess sem brennsla þeirra mengar gífurlega.

Ég tel að við hefðum átt að fara eftir þessari rammaáætlun sem var lögð til. Við vitum nákvæmlega af hverju þetta kemur svona seint fram. Það er vegna þess að miklar deilur voru í stjórnarflokkunum um að taka út fimm vatnsaflsvirkjanir og eina gufuaflsvirkjun. Þær voru teknar út eftir mikil átök og mikinn slag. Það hefði átt að gerast í þinginu fyrir opnum tjöldum þannig að við hefðum getað rætt það beint.

Úr því að talið berst að rörsýn vil ég líka líta til heimshagsmuna í þessu sambandi. Þetta er nefnilega ekki bara mál Íslendinga.

Teravattstundirnar 17 sem er búið að virkja núna, eða 18, væri hægt að nýta sennilega 10–20% meira ef við gerðum jarðstreng til Evrópu. Þar með værum við komin með heilmikið af nýrri orku sem ekki er tekin neins staðar frá. Hún bara er þarna. Hún byrjar að renna fram hjá virkjununum eftir einn eða tvo mánuði.

Það er svona hugsun sem við viljum hafa. Við þurfum að líta á þetta með heimssýn. Ég vona að ég sé ekki með rörsýn. (GLG: Okkar kynslóð, Pétur, ekki þú.)