140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:08]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður talaði um og orðaði það svo að jafnvægið hefði raskast. Mig langar í rauninni að spyrja hann um heildarmyndina á þessu jafnvægi. (Gripið fram í: Já, …) Nú hefur það komið fram í máli þó nokkurra þingmanna sem hér hafa talað í dag og eru í stjórnarandstöðunni að þeir taki einmitt undir það að ýmsar spurningar séu uppi er varða háhitasvæði, mikil óvissa sé um þau o.s.frv. og þar sé ýmsum spurningum ósvarað.

Nú erum ekkert að byrja á upphafsreit í þessum málum. Eins og ég sagði hér áðan eru ýmsir af hinum svokölluðu hagkvæmustu virkjunarkostum farnir og nær helmingi háhitasvæða hefur nú þegar verið raskað. Þá spyr ég þar sem þessi háhitasvæði eru oft akkúrat svæðin með hæsta verndargildið: Hvar telur hv. þingmaður að jafnvæginu verði náð? Er það þegar helmingi háhitasvæða hefur verið raskað, 2/3, 3/4 hvar er jafnvægið í heildarmyndinni að mati þingmannsins?

Þá áfram með það sem ég talaði um áðan, um hinar margumtöluðu teravattstundir þar sem við höfum á ógnarskömmum tíma farið úr sex teravattstundum á ári í 17 og innan skamms blasa væntanlega við 18 og það eru ekki svo óskaplega margar eftir til skiptanna. Hvar er þá hið gullna jafnvægi ef við erum ekki að byrja á upphafsreit, eins og hér er svo oft talað um (Forseti hringir.) eða reynt að láta í veðri vaka að það séu óendanleg verðmæti eftir og við séum núna (Forseti hringir.) að finna eitthvert jafnvægi og byrja á upphafsreit, þegar svo miklu hefur verið raskað nú þegar?