140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:13]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Já, það er einmitt mikilvægt að huga að jafnvægi og yfirvegun.

Mig langar að spyrja þegar hv. þingmaður lítur til sögunnar: Er hann sammála því að það sé í rauninni mikið ójafnvægi á milli fyrirliggjandi rannsókna okkar og þekkingar hvað varðar orkugeirann og orkurannsóknir og „virkjunarkosti“, að það sé himinn og haf á milli þeirrar þekkingar sem þar liggur fyrir annars vegar og hins vegar rannsókna okkar á náttúru landsins, á gildi landslags og gildi alls kyns fyrirbæra sem eru ef til vill mun skemur á veg komin, ekki vegna þess að okkur skorti færa vísindamenn, við getum státað af frábæru vísindafólki á þessum sviðum eins og ýmsum öðrum, heldur vegna skorts á fjármagni? Alls kyns hlutir hafa gert að verkum að rannsóknir eru skammt á veg komnar, t.d. rannsóknir á gildi svæða út frá landslagi, ferðaþjónustu, hugsanlegum framtíðarútivistarmöguleikum o.s.frv., að ég tali nú ekki um samfélagsleg áhrif sem eru eins og stór gapandi hola í vinnu þessarar rammaáætlunar.

Er hv. þingmaður sammála mér um að þarna hafi einmitt skort mikið jafnvægi almennt séð ef við lítum til sögunnar og mikilvægt sé að reyna áfram að ráða bót á því?

Í lokin: Er hv. þingmaður líka sammála mér í því að ef við ætlum að stefna að einhvers konar sátt og yfirvegun að helstu færi okkar núna liggi í stækkun fyrirliggjandi virkjana og betri nýtingu aukins vatnsrennslis á þeim virkjunum sem fyrir liggja (Forseti hringir.) og eru til staðar? Og að okkar helstu færi liggi jafnvel einnig í orkusparnaði?