140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:25]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók það strax fram í fyrri ræðu minni að ég hefði setið í verkefnisstjórninni, ég var skipuð þar af Geir Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og samkvæmt samtali við hann skipaði hann mig í þann hóp þar sem ég var sveitarstjórnarmaður og jafnframt með lögfræðimenntun. Það var rökstuðningurinn.

Ég lét síðan hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur vita af þessu fyrirkomulagi þegar skipt var um forsætisráðherra og ákvað hún að halda skipun minni óbreyttri. Ég lít þannig á að það hafi verið forsagan að setu minni í verkefnisstjórn. Í verkefnisstjórninni sátu fjölmargir, mjög margir komu frá ráðuneytum og síðan voru þar fagmenn sem fengnir voru í verkefnið. Formaður verkefnisstjórnar var, eins og komið hefur fram, Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri á Dalvík. Þannig var hópurinn samsettur.

Faghóparnir sem unnu mesta vinnuna voru síðan skipaðir af fleira fólki og þar komu inn fjölmargir sérfræðingar á flestöllum sviðum sem varða starf rammaáætlunarinnar. Ég held að enginn geti haldið því fram að niðurstaða rammaáætlunarinnar, sem byggir á þeirri aðferðafræði sem lögð var fram, hafi á sér einhver pólitísk fingraför. Ég tel að ekki sé hægt að rökstyðja það með nokkru móti, fólki er heimilt að gera það en með því er þá verið að segja að öll þessi vinna sé í raun ófagleg. Það fólk ætlar þá væntanlega ekki að styðja niðurstöðuna.

Ég kemst ekki yfir að svara hinni spurningunni varðandi það hvort ég var sátt við niðurstöðuna.