140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:32]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Eins og fram kom missti ég því miður af ræðu hv. þingmanns á föstudag þar sem ég var fjarverandi en ég hlustaði af athygli á hennar stuttu ræðu núna. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þingmanni hvað varðar þá ítarlegu og miklu vinnu sem hér liggur að baki. Það hafa vissulega verið stigin ýmis framfaraskref í þessum efnum og aðferðafræðin þróuð áfram. Ég vil hins vegar spyrja um nokkur atriði og segja um leið að þótt aðferðafræðin hafi verið þróuð áfram, eins og komið hefur fram, er samt ýmislegt sem mikið mætti bæta.

Ég hef hug á að spyrja hv. þingmann hvar hún telur helst að bæta megi frekar, fylla í holur. Er hv. þingmaður sammála því sem hér hefur komið fram, meðal annars í umræðum um að við eigum að fara sérstaklega varlega hvað háhitasvæðin varðar vegna þess að þar sé svo mörgum spurningum enn ósvarað, og er hún sammála mér um að þar vanti enn frekari rannsóknir? Er hv. þingmaður sammála því að við eigum þá frekar að fara fram af varkárni í þeim efnum en að taka sénsa og hlusta í þeim efnum á ýmsa færa vísindamenn?

Ég vil líka fá frekari útlistanir hjá hv. þingmanni. Í þessum ræðustól er talað eins og það séu stórkostlegir atburðir að gerast þegar hæstv. ráðherrar fara samkvæmt lögum sem Alþingi setti, hlusta á umsagnir sem koma inn og færa til kosti í biðflokk, hvorki í vernd né nýtingu heldur í biðflokk, sem þýðir hvað? Jú, að það eigi einmitt að fara fram ítarlegra mat, ítarlegri rannsóknir og styrkja grundvöll fyrir (Forseti hringir.) faglegum niðurstöðum. Hvernig getur hv. þingmaður verið á móti því að það sé gert til þess einmitt (Forseti hringir.) að reyna að ná fram faglegri niðurstöðum að lokum?