140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:34]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið en það er einmitt svo að ég trúi því að niðurstöður, vinna og aðferðafræði verkefnisstjórnarinnar sé nægjanlegur grundvöllur fyrir Alþingi og ríkisstjórnarflokkana til að taka ákvörðun varðandi þá kosti sem fluttir eru yfir í biðflokk í þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir. Það er skoðun mín og sannfæring af því að ég trúi á það sem verkefnisstjórnin var að gera og ég get ekki annað en staðið hér og fullyrt það, ég trúi á þá vinnu.

Varðandi ábendingar um það sem betur mætti fara þá tekur enn við vinna til framtíðar, þegar við klárum þetta mál, varðandi þá kosti sem enn þá verða í biðflokki og hugsanlega eitthvað nýtt sem koma mun upp í framhaldinu. Verkefnisstjórnin skrifaði sérstakan kafla, sem er að finna á bls. 153 og áfram, í skýrslu verkefnisstjórnarinnar þar sem fjallað er um þau atriði sem verkefnisstjórnin rak sig einkum á og náði ekki að klára. Þar er til dæmis vakin athygli á hugtakinu sjálfbær þróun, sem var mjög oft til umræðu hjá okkur í verkefnisstjórninni vegna þess að fræðimenn sem og almenningur og þeir sem hafa skoðanir á þessu máli voru ekki alveg sammála um hvað fælist í því hugtaki, þannig að það er eitt af því sem skilgreina þarf betur. Það er í raun niðurstaða skýrslunnar að það sé nauðsynlegt fyrir vinnu næstu verkefnisstjórnar að taka sér tíma í að reyna að skilgreina það betur.

Varðandi rannsóknir eigum við auðvitað mjög margt eftir sem rannsaka þarf betur og væri mjög gott ef hægt væri að setja mikið fjármagn í að rannsaka ýmis atriði sem tengjast náttúruvernd og náttúrunni okkar enn frekar. (Forseti hringir.) En eins og flestir vita hafa ekki verið settir fjármunir í það og ég sé þess ekki merki og sýnist ekki vera tóm til þess á þessari stundu.