140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:39]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins varðandi það hvort frekari rannsókna sé þörf á öllum þeim kostum sem liggja fyrir, þá væri hægt að rannsaka alla kosti betur, en það er bara spurning hversu langt við komumst þá. Alþingi ákvað og setti í lög árið 2011 hvernig raða ætti þessum kostum og það ákvað einnig að biðflokkurinn svokallaði yrði þetta þröngur. Eins og ég kom aðeins inn á áðan taldi ég fyrir fram þegar ég vann í verkefnisstjórninni og velti fyrir mér hvernig málið færi að lokum inn í þingið, að biðflokkurinn yrði miklu víðari. Ég veit að það voru fleiri í verkefnisstjórninni en ég sem höfðu gert ráð fyrir að hann yrði víðari, jafnvel sumir þeirra sem vildu að verndargildum og verndarsjónarmiðum yrði gert mjög hátt undir höfði, þeir voru líka svolítið hissa á því að þetta væri niðurstaðan. Það er stór ákvörðun að vernda alla þá kosti sem hér liggja fyrir. Ég hef hitt náttúruverndarsinna sem eru talsvert hissa á því hversu margir kostir fara þarna í verndarflokk vegna þess að með því tökum við stórar ákvarðanir til framtíðar. Og eins og sumir hv. þingmenn hafa komið inn á vitum sem ekki hvað framtíðin ber í skauti sér og hugsanlega munu framtíðarkynslóðir vilja gera eitthvað annað við þá kosti sem við röðum hér í verndarflokk.

En Alþingi tók ákvörðun og ég tel að hv. þingmaður hafi tekið þátt í því að afgreiða lögin árið 2011. Niðurstaðan er þessi: Það er ekki hægt að skjóta sér undan því að taka ákvarðanir með því að setja fleiri kosti í biðflokk. Það var niðurstaða Alþingis að hafa það ekki þannig og þá verðum við bara að taka ákvarðanir um kostina. (Forseti hringir.) Fleiri kostir falla þá bæði í nýtingu og vernd.