140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:41]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Við ræðum 2. áfanga rammaáætlunar um vernd og nýtingu vatnsafls og jarðhita. Þetta er eitt af þeim risastóru málum sem ég vil byrja á því að gjalda varhuga við að farið sé of hratt með í gegnum þingið sem ætlunin er að gera núna í vor. Þetta er allt of stórt og allt of mikilvægt mál til þess.

Mig langar að hefja mál mitt á því fyrir galtómum þingsal að hvetja atvinnuveganefnd, umhverfisnefnd og þingið allt til að nota nú sumarið í það — afsakið, hér er hæstv. fjármálaráðherra staðgengill iðnaðarráðherra með eyrun opin fyrir málflutningi mínum sem er gott að vita — að bjóða þingmönnum upp á að fara og skoða þau svæði sem verið er að ræða um í þessari áætlun og leggja eigið mat á það hvað þeim finnst um áætlunina, hvort sem um er að ræða orkunýtingarflokk, biðflokk eða verndarflokk.

Ég hef rekið mig á það í gegnum árin að þær upplýsingar sem ég hef haft sem almennur borgari, svo að ég nefni eitt dæmi um jarðhitavirkjanir, voru einfaldlega alrangar á sínum tíma. Ég var lengi stuðningsmaður þess að jarðhitinn yrði virkjaður í meira mæli en gert var og taldi til dæmis að Hellisheiðarvirkjun yrði ágætiskostur í því sambandi. Við stöndum hins vegar frammi fyrir því að Hellisheiðarvirkjun hefur eyðilagt Hellisheiðina sem náttúrufyrirbæri vegna þess meðal annars að aldrei var gerð nein grein fyrir því hvað það þýðir að fara af stað með jarðhitavirkjun á svæðinu. Þetta er bara ekki einhver ein borhola og virkjanahús, þetta eru kílómetrar eftir kílómetra af leiðslum ofan jarðar, stórum litskrúðugum leiðslum, farið yfir mjög fallegt landsvæði eins og hraun með jarðýtum til að slétta það og jafna úr því, skellt upp vegheflum hingað og þangað og landið sléttað og eyðilagt þannig að jarðvarmavirkjun er ekki lengur sú þægilega framkvæmd sem menn héldu að væri.

Varðandi þessa rammaáætlun langar mig að benda á nokkur atriði. Það fyrsta er hversu mikið af svæðum á Reykjanesi eru sett í nýtingarflokk. Hér eru inni svæði sem eru algerlega ósnert eins og Krýsuvíkursvæðið þar sem er gríðarleg náttúrufegurð, Sveifluháls og allt það. Ef þessi svæði öll fara áfram sem orkunýtingarflokkur og sveitarfélögin á svæðinu gefa leyfi til að skipuleggja þau sem virkjunarsvæði verða þau einfaldlega eyðilögð. Þetta er gert í nafni þess að framleiða eigi rafmagn úr jarðhitanum. Rafmagnsvinnsla úr jarðhita þýðir 12–15% nýtingu á orkunni, 85–88% af orkunni sem numin er úr jarðhitageymunum verða að engu.

Þessi umræða hefur enn ekki farið nægilega vel fram. Jú, jú, það er eitt og sér í lagi að ætla sér að fara að virkja jarðhitann en viljum við gera það með því að sóa 85% af orkunni í ferlinu? Það er að mínu viti algerlega óásættanlegt og ég held að það eigi bara að vera skilyrði þess, ef menn ætla sér að virkja jarðhita, að þeir virki hann bæði til rafmagnsframleiðslu og til nýtingar á því heita vatni sem kemur upp eins og til dæmis er gert á Nesjavöllum. Annað er botnlaus sóun á mjög dýrmætri orku.

Komið hafa fram vísbendingar um takmarkanir á orkuvinnslu úr jarðhitageymunum. Jarðhitasvæðin eru kölluð námur af jarðvísindamönnum, námur sem munu tæmast. Ég leyfi mér að benda á að gefin er vísbending um þetta í þingsályktunartillögunni á bls. 15 þar sem segir beinlínis, með leyfi forseta, um Krýsuvíkursvæðið:

„Krýsuvíkursvæðið er mikilvægt fyrir hitaveitur höfuðborgarsvæðisins.“

Hvað er verið að segja þarna? Það er verið að segja þarna að þau jarðhitasvæði sem núna eru nýtt á höfuðborgarsvæðinu, eins og t.d. Hellisheiðin sem er eingöngu nýtt til rafmagnsframleiðslu, muni tæmast innan einhverra ára eða áratuga og þá þurfi að nýta Krýsuvíkursvæðið til að íbúar á höfuðborgarsvæðinu þurfi ekki að fara að kynda hús sín með olíu.

Jarðvísindamenn hafa líkt bent á að fyrirhugaðar áætlanir um nýtingu jarðhita á Reykjanesi, þar sem Reykjanesvirkjun á að fara í stækkun, þýða að innan við 25–30 ára munu Keflvíkingar þurfa að fara að hita upp hús sín með olíu. Þetta er náttúrlega algerlega galin vegferð ef þetta er rétt og þetta þarf að ræða miklu betur. Við verðum að nýta jarðhitann betur en þetta og við verðum jafnframt að viðurkenna að nýting jarðhita á nú ósnortnum svæðum þýðir að svæðin í heild sinni verða eyðilögð. Það verður ekki verndað eftir á þegar búið er að fara af stað með jarðhitann, það er ekki hægt að taka niður holumannvirkin og virkjunina því að búið er að gereyðileggja landsvæði á tugferkílómetra svæði út af hverri einustu virkjun.

Ég tel að í þessari rammaáætlun, þó að hún sé mjög fagleg og vel unnin, sé of mikið af virkjunum í nýtingarflokki sem ættu að vera í biðflokki. Það eru gríðarlega mikilvæg landsvæði undir og eins og ég sagði áðan þá verndum við ekki eftir á þegar búið er að setja svæðið í nýtingarflokk og byrjað að rannsaka það þá er það ónýtt.

Ég bendi líka á að það eru aðeins 7,7% af þeim 60 þúsund gígavattstundum sem er tæknilega hagkvæmt að virkja sem eru í biðflokki og aðeins 40% eru í verndarflokki, þ.e. um 60% af allri þeirri orku sem er tæknilega hagkvæmt að virkja á Íslandi er annaðhvort þegar nýtt eða í nýtingarflokki eða í biðflokki. Og ég segi bara: Er ekki komið nóg og ef ekki, hvenær er komið nóg? Hvað ætla menn að fara langt? Það er búið að gefa alþýðulýðveldinu Kína opinbert loforð um að það fái að reisa hér verksmiðjur upp á Grundartanga sem þurfa 160 megavött af orku. Er það rétta leiðin til að fara inn í framtíðina?

Annað sem ekki hefur verið rætt eru háspennulínur. Núna liggur fyrir, og búið að samþykkja á þinginu, tillaga til þingsályktunar um mjög faglega og góða úttekt á því hvað það þýðir að reyna að koma háspennulínum landsins í jörðina. Mér finnst algerlega fráleitt að ætla sér að fara af stað með svæði í orkunýtingarflokk þar sem háspennulínur munu nauðsynlega þurfa að liggja þvers og kruss yfir ósnortið land, eins og t.d. á Þeistareykjum, sums staðar á Kröflusvæðinu, Krýsuvíkursvæðinu og Reykjanessvæðinu, án þess að búið sé að athuga það fyrst hvort hægt sé að gera þetta með öðrum hætti en strengja háspennulínur yfir landið. Það eru miklar framfarir í flutningi á raforku og það eru ýmsar hugmyndir uppi um það með hvaða hætti megi koma þessum mannvirkjum ofan í jörðina og það á ekki að æða af stað fyrr en komin er niðurstaða um það mál.

Ég tel eins og ég sagði í upphafi máls míns að afgreiða eigi þetta mál til nefndar og nefndin eigi að skoða þetta mál rækilega og að bæði atvinnuveganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd eigi að vinna þetta mál í sameiningu eins og hægt er. Þó að engar stoðir séu í þingsköpum til að styðjast við er engu að síður hægt að hafa sameiginlega fundi um málið til að það fái nógu góða umfjöllun. Ég tel að það sé algerlega fráleitt að ætla þingmönnum og Alþingi að samþykkja þetta mál út úr þinginu fyrir vorið án þess að þingmenn hafi fengið tækifæri á skipulögðum ferðum með vísindamönnum á þessi svæði til að kynna sér þau betur.

Ég leyfi mér að benda á enn eitt dæmi: Ég var til skamms tíma hliðhollur virkjunum í neðri hluta Þjórsár vegna þess að talað var um að þær væru rennslisvirkjanir, mannvirkin yrðu neðan jarðar, tækju ekki mikið pláss og það yrðu engin uppistöðulón. Fyrir ekkert mjög löngu keyrði ég upp Þjórsárdalinn og sá þar skilti uppi í hlíðinni vinstra megin við veginn sem bendir á að hér muni yfirborð lónsins verða. Það kom mér mikið á óvart vegna þess að öll umfjöllun um málið hafði verið með öðrum hætti. Á fundi með Landsvirkjun var skýringin sú að þetta væri ekki uppistöðulón, þetta væri rennslislón þannig að enn er verið að beita blekkingum í þessa veru í umræðunni. Það gengur ekki að þingmenn skuli ekki fá allar staðreyndir málsins upp á borðið og fá að skoða með eigin augum hvað er í húfi við 2. áfanga rammaáætlunar. Ég legg eindregið til að málið verði skoðað í sumar og svo klárað á haustþingi.