140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:54]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ef ég hef mismælt mig áðan og sagt að ég óskaði eftir að fleiri svæði færu í nýtingu en ekki vernd þá voru það sannarlega öfugmæli, fleiri svæði eiga að fara í vernd en ekki nýtingu samkvæmt minni skoðun.

Auðvitað er það algerlega einstakt að hafa svæði eins og Reykjanessvæðið í jaðri alþjóðaflugvallar landsins og í jaðri höfuðborgarsvæðisins. Það er í rauninni ótrúlegt að ferðaþjónustuaðilar á því svæði skulu ekki hafa lagt meiri áherslu á Reykjanesið því að það er algerlega einstakt og fallegt og ofboðslega gaman að ferðast um það. Í staðinn er áherslan alltaf lögð á að koma erlendum ferðamönnum út á land, eins og sagt er, og þá er Reykjanessvæðið einhvern veginn ekki úti á landi.

Það er ekki lengra síðan en í gær að ég gekk á Helgafell sem er í Hafnarfjarðarhrauninu og það var stöðugur straumur fólks upp á fjallið vegna þess að Helgafell er einstakt og útsýnið af því algerlega einstakt. Það mun eyðileggjast með tilkomu virkjana við Sveifluháls og á öllu þessu svæði. Það mun einfaldlega eyðileggjast, og það er ábyrgðarlaust að fara af stað og virkja eins og fyrirhugað er með allar þessar virkjanir í nýtingarflokki á Reykjanesi. Það er hægt að halda áfram með einhver svæði þar sem þegar er búið að virkja, eins og yst á Reykjanesinu og í Svartsengi, en að brjóta ný svæði undir jarðvarmavirkjanir með 12–15% nýtingu á orkunni er glapræði.

Hvað hagfræðina og nýtinguna varðar þá hef ég oft bent á að við höfum notað stærstan hluta orku okkar í stóriðju, í álver. Störf í álveri eru dýrustu störf sem hægt er að búa til og þau eru tiltölulega fá, 0,8% af vinnuafli á landinu starfar í álverum þó að afleidd störf séu mun fleiri. Ég er algerlega þeirrar skoðunar að við eigum að nýta orkuna innan lands og við eigum að nýta hana helst í þeim héruðum þar sem hún er, en við eigum að nýta hana til betri uppbyggingar en til stóriðju.