140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:56]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég kem eiginlega upp til að biðja hv. þingmann að halda áfram að tala um hagfræðina í þessum efnum vegna þess að hún er mjög mikilvæg. Til framtíðar litið held ég einmitt að við vanmetum mjög hagkvæma nýtingu náttúrusvæða, eins og t.d. hagkvæmni þess að vernda tiltekin svæði.

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni, en við hv. þingmaður sitjum saman í umhverfis- og samgöngunefnd, að það er mjög mikilvægt að málið komi einnig til umhverfisnefndar til vinnslu. Mér hefði reyndar þótt eðlilegt að það færi þangað inn. Auðvitað verðum við að vinna þetta samhliða með atvinnuveganefnd en að málið sé á forræði iðnaðarráðherra og eigi að fara inn í atvinnuveganefnd lýsir í reynd einmitt nýtingaráherslunni sem enn er til staðar í þessum efnum. Að sjálfsögðu á umhverfisnefnd að láta sig þetta stærsta umhverfismál okkar tíma varða og það á að fara inn á borð hennar.

Eins og hv. þingmaður veit og gat einmitt um í máli sínu, lögðum við í umhverfis- og samgöngunefnd fram þingsályktunartillögu sem samþykkt var, um að kanna málin varðandi háspennulínur og jarðstrengi — hér gengur einmitt hjá hv. þm. Helgi Hjörvar sem lagði upprunalega fram tillögu um þetta efni. Við breyttum henni í nokkrum atriðum, en mig langaði að spyrja hv. þingmann: Er hv. þingmaður ekki sammála því að jafnvel þó að háspennulínur séu lagðar í jörð — og það eigum við að gera þar sem það er rétt og er metið sem góður kostur — geti jarðstrengir verið mjög slæmir og bagalegur kostur á viðkvæmum svæðum? En það er hins vegar hárrétt hjá hv. þingmanni að háspennulínur á svæði eins og Reykjanesskaganum munu draga gríðarlega úr verðmæti svæðisins ef af öllum þessum virkjunum verður.