140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[17:06]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að taka einmitt undir þau sjónarmið að atvinnuveganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd eigi að vinna þetta samhliða. Það mættu fleiri tileinka sér það viðhorf að okkur sé öllum hollt að hlusta á ólíkar skoðanir og ólík sjónarmið — raunverulega að hlusta. Væntanlega er það lærdómsferli hjá okkur öllum, m.a. þeirrar sem hér stendur, en oft vantar upp á það hér innan húss. Ég fagna því sem komið hefur fram í máli hv. þingmanns.

Það sem mig langar hins vegar aðallega að spyrja hann um er hvar hann telji mestan og hvað alvarlegastan þekkingarskort okkar liggja í því er varðar nýtingu á landi og landsins gæðum. Deilir hann áhyggjum stjórnarandstöðuþingmanna meðal annarra, sem hér hafa komið fram, hvað varðar ósjálfbæra nýtingu háhitasvæða, þ.e. að þar eigum við að fara fram af sérstakri varkárni?

Þegar hefur nær helmingi allra háhitasvæða landsins verið raskað. Vísindamenn vara við alls kyns hlutum hvað það varðar. Reynslan kennir okkur að betra er að fara af varfærni. Við horfum fram á brennisteinsmengun og við horfum fram á vandræði með hvað eigi að gera í sambandi við mengandi affallsvatn og við horfum fram á aukna jarðskjálftavirkni og einmitt ósjálfbæra nýtingu jarðhita sem sumir vísindamenn hafa líkt við námugröft þegar kemur að raforkuvinnslu.

Er hv. þingmaður sammála því (Forseti hringir.) grunnatriði að þegar kemur að háhita og háhitasvæðum eigi að fara fram af sérstakri ábyrgð og varfærni?

(Forseti (SIJ): Forseti vill beina því til hv. þingmanna að beina orðum sínum til forseta.)