140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[17:14]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið við síðustu spurningu hv. þingmanns er já. Við eigum að fara varlega, sérstaklega þar sem við getum raskað landsvæðum um fyrirsjáanlega framtíð. Það er mín skoðun.

Hv. þingmaður kom líka inn á og spurði mig hvernig ég mæti ósnert landsvæði. Auðvitað er ósnert landsvæði mikils virði. Það gefur augaleið.

Ég vil hins vegar koma því á framfæri að við dettum oft í þessari umræðu, sem hefur reyndar alls ekki gerst núna, alveg sama hvaða hv. þingmaður hefur talað, í svo öfgafullar nálganir hvort sem menn vilja, eins og stundum er sagt, virkja allt eða ekki neitt.

Eitt dæmi er vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum sem hefur blasað við en hv. þingmaður spurði sérstaklega um ósnortna náttúru á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur vakið athygli mína á undanförnum árum og það hef ég oft sagt að mér finnst ekki vera sömu viðmið hvort heldur sem menn þurfa að leggja veg eða gera eitthvað annað á sunnanverðum Vestfjörðum — ég hef töluverða reynslu af því í mínu eigin sveitarfélagi þar sem ég starfaði í sveitarstjórn miðað við allar þær hindranir sem mér fannst verða á veginum, ekki að þær séu óréttlátar en mér fannst þær vera of margar — en síðan þegar kemur að suðvesturhorninu virðist mega fara yfir hvaða hraun sem er, þá er alveg sama hvað fyrir er. Ég velti fyrir mér hvort það sé vegna þess að þar er svo mikill fjöldi og hagsmunir svo margra. Ég hef oft upplifað það þannig að fara megi yfir allt á suðvesturhorninu en síðan eigi að vernda allt á landsbyggðinni til að fólkið sem býr á hér höfuðborgarsvæðinu geti, þegar það kemur út (Forseti hringir.) á land, skoðað ósnortna náttúru. Það gilda ekki sömu lögmál hér og þar hefur mér fundist í gegnum tíðina.