140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[17:16]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Þetta höfum við kallað rammaáætlun. Ég hef fylgst með þessu ferli bæði áður en ég fór á þing og eftir, ég átti sæti í iðnaðarnefndinni gömlu sem hafði til meðferðar frumvarp sem tengdist þessu og ég held að þetta sé skynsamlegasta aðferðin sem við getum komið okkur saman um til að meta og ákveða hvað við ætlum að gera við virkjunarkosti.

Það sem öllu skiptir í þessu að mínu viti er að við gerum þetta vel, að við vöndum okkur eins og hægt er og höldum þessu ferli faglegu. Við verðum að passa okkur á að ógna ekki sáttinni sem þetta mál hefur verið unnið út frá og við náðum fullkominni sátt um frumvarpið í iðnaðarnefnd í fyrra og ég var stolt að standa að því. Ef við förum að víla og díla með virkjunarkosti, sem ég er alls ekki að segja að gert verði en einhvern veginn hefur mér fundist eins og sumir vilji hnika einhverju til, held ég að við eyðileggjum þetta og klúðrum þessu algerlega.

Ég verð að viðurkenna að ég er ansi hrædd við að svo fari að annaðhvort dagi málið uppi ef við klárum þetta ekki eða að þingmenn fari að nota þetta sem skiptimynt á síðustu dögum þingsins og við klúðrum því tækifæri að koma á sátt um þessi mál. Ef við getum hætt að rífast um virkjunarkosti held ég að við séum bara góð, alla vega á þessu sviði.

Er eitthvert svigrúm? Ef fram koma upplýsingar um að eitthvað sé ekki nægilega vel rannsakað þá held ég að okkur beri skylda til að taka tillit til þess en ég held að svigrúm okkar sé ekki meira. Okkar persónulegu skoðanir verða að víkja. Þetta er plagg sem á og verður að standa til framtíðar og ef við förum að grauta í því mun það ekki verða þannig. Þá mundi það vera rammaáætlun núverandi ríkisstjórnar og sú næsta mun koma og gera eitthvað allt annað. Þess vegna þurfum við öll kannski að gefa svolítið eftir ef við ætlum að ná sátt. Ég hef mjög ákveðnar skoðanir í þessum málaflokki, ég hef frekar verið fylgjandi því að vernda meira en virkja og ég mun sjá eftir því ef farið verður í allar þessar virkjanir, t.d. á Reykjanesskaganum, en um leið og ég fer að skipta mér af þessu, um leið og ég fer að gera tillögur um að eitthvað sé fært úr orkunýtingarflokki í annan flokk finnst mér þetta í raun og veru ónýtt. Ég vil bara ítreka það að við ógnum ekki sáttinni sem ég vona að við getum náð um þetta. Þótt eitthvað sé í orkunýtingarflokki þýðir það ekki að við verðum að nýta það strax eða að við megum ekki vera varfærin í nýtingu og ég vil taka undir þau sjónarmið sem komu fram áðan að við förum okkur hægt í nýtingu jarðvarma. Ég veit að tækninni mun fleygja fram, við munum ná meiru út úr þessum auðlindum þegar við erum komin lengra í tækniþróun. Út frá þeim sjónarmiðum er kannski betra að bíða aðeins og líka að sjá hvernig svæðin bregðast við. Það hafa verið reifuð ýmis sjónarmið af jarðfræðingum að jarðhiti sé eiginlega eins og náma sem mun tæmast og sérstaklega ef of skarpt er farið í nýtingu.

Þetta eru þau sjónarmið sem ég vil koma á framfæri og legg til að haldið sé áfram að vinna þetta í faglegum farvegi og að við ógnum ekki sáttinni með egóinu.