140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[17:21]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að mörgu leyti get ég fallist á þau sjónarmið sem komu fram í ræðu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur en það er eitt sem ég vildi kannski biðja hana að skýra aðeins nánar þegar hún talar um að raska ekki sáttinni. Við hvaða stöðu málsins er hún þá að miða? Er hún að miða við þingsályktunartillöguna eins og hún liggur fyrir þinginu? Er hún að miða við niðurstöðu verkefnisstjórnar? Hvor viðmiðunin er það? Eins og ég horfi á málið var það sem frá verkefnisstjórninni kom einhvers konar málamiðlun, ekki fullkomin en einhvers konar málamiðlun. En þegar hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra höfðu haft málið í sínum höndum um nokkurra mánaða skeið kom tillaga út úr því þar sem sú breyting er gerð að allmargir virkjunarkostir eru færðir úr nýtingarflokki í biðflokk og þá finnst mér sáttin vera farin að hallast dálítið, jafnvægið farið að hallast dálítið. Ég ætlaði að spyrja hv. þm. Margréti Tryggvadóttur hvort hún deili þeirri skoðun með mér eða hvort hún sé að tala um þá sátt sem hefur orðið innan ríkisstjórnarflokkanna og birtist í þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir.