140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[17:34]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það eru nokkrir þættir sem ég vildi spyrja hv. þm. Róbert Marshall betur út í. Ég hef ekki tíma til þess alls en ég ætla til að byrja með að einangra mig við neðri hluta Þjórsár.

Hv. þingmaður kom inn á það að í hans huga hefði aldrei komið til greina að virkja neðstu virkjunina, Urriðafossvirkjun, en væntanlega hefur honum þá komið í hug að virkja bæði Hvamms- og Holtavirkjun, en hann vildi fara varlega í því í sambandi við lax- og urriðaveiðar, þ.e. lífríki árinnar, búsvæði.

Nú hefur það komið fram að eftir að laxastiginn var settur við fossinn Búða sem er fyrir neðan báðar þessar virkjanir — ef menn hefðu ekki sett hann þar væri enginn lax þar fyrir ofan og búsvæði árinnar væri ekki til. Það er nýkomið fram að búsvæði Þjórsár og þar af afrakstur hennar í löxum talinn hefur á síðustu árum, eftir allar virkjanirnar, tvöfaldast og jafnvel þrefaldast, þ.e. á síðustu fimm árum ef menn horfa 30–40 ár aftur í tímann þegar stunduð var grimmari veiði en gert hefur verið á síðustu árum. Finnst þingmanninum þá ekki skjóta svolítið skökku við að í nafni umhverfisverndar megi ekkert vera manngert? Eigum við þá að brjóta laxastigann í fossinum Búða niður og láta ána vera eins og hún var áður?

Hæstv. ráðherra Oddný G. Harðardóttir og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, sem eru samflokksmenn, hafa látið hafa eftir sér í sunnlenskum fréttamiðlum að til greina komi að fara út í Holta- og Hvammsvirkjun en geyma Urriðafoss, meðal annars til að rannsaka áhrif á laxgengd og laxveiði og þá möguleika sem menn hafa til að útfæra Urriðafossvirkjun betur. Kemur til greina að virkja hinar tvær? Er hv. þingmaður þá sammála samflokksmönnum sínum?