140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[17:43]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að segja að ég er þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að ná sátt milli nýtingarsjónarmiða og náttúruverndar og að ekki verði hlaupið frá því verkefni með nokkrum hætti. Hagsmunir Íslands eru allir fólgnir í því að við höfum um þessa hluti þannig regluverk og umgjörð að við náum að nýta landið okkar og þá miklu kosti sem það býður upp á og að við getum um leið skilað náttúrunni í sem bestu ásigkomulagi til komandi kynslóða.

Ísland er land sem byggir efnahagslega afkomu sína að stórum hluta á nýtingu náttúruauðlinda. Það er enginn nýr sannleikur. Það er hægt að nefna dæmi úr nýliðinni sögu okkar þar sem við höfum gengið of hart fram í nýtingu, t.d. í fiskveiðum þar sem eru dæmi um að við höfum annaðhvort ofveitt stofna eða allt að því ofveitt þá. Það er eins um landið okkar, við verðum að fara varlega og vera skynsöm þegar kemur að nýtingu þess. Þess vegna er sú vinna sem liggur að baki rammaáætlun alveg gríðarlega mikilvæg. Þetta er tilraun, frú forseti, til að ná fram sátt á vettvangi stjórnmálanna og vonandi líka í samfélaginu öllu, sátt um nýtingu náttúruauðlinda, hverju við getum fórnað af landinu okkar fyrir það að vinna orku til að knýja efnahagsstarfsemina áfram. Það verður ekki fram hjá því horft að færðar verða fórnir hvað þetta varðar, þ.e. um leið og búið er að taka ákvörðun um að virkja, hvort sem um er að ræða vatnsaflsvirkjanir eða jarðvarma, erum við að færa fórnir. Það er nauðsynlegt að við gerum það með opin augun og að við höfum farið mjög vel í gegnum kosti og galla sem af slíkri nýtingu stafa. Þess vegna er þessi rammaáætlun mikilvæg.

Vissulega stendur styr um ákveðna þætti hennar núna. Það er miður hvernig hana hefur borið að, þ.e. hvernig haldið hefur verið á málinu í aðdraganda þess að það kom inn í þingið. Það var til þess fallið að vekja tortryggni og draga úr tiltrú á því að nægilega faglega hefði verið staðið að þessum verkefnum.

En gott og vel, við stjórnmálamennirnir stöndum frammi fyrir því verkefni að taka ákvörðun um þessa nýtingu, hvað sem líður starfi fræðimannanna, og það getum við aldrei gert öðruvísi en í samræmi við samvisku okkar og okkar bestu þekkingu og skilning á því viðfangsefni sem hér er um að ræða. Hvað sem líður öllu tali um faglegt mat verður það alltaf sannfæring okkar þingmannanna sem mun ráða þessu máli. Þannig er stjórnarskráin skrifuð, það er okkar skylda.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt eða í það minnsta mjög æskilegt að ráðast í virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Ég tel að færð hafi verið mjög sterk rök fyrir því af hálfu fræðimanna á sviði náttúruverndar en líka af hálfu þeirra sem vega og meta annars vegar hinn efnahagslega ábata og þá um leið líka hverju þarf að kosta til. Ef menn komast að þeirri niðurstöðu að ekki sé rétt að virkja í neðri hluta Þjórsár er um leið verið að segja að það séu í raun og veru engir möguleikar eftir fyrir vatnsaflsvirkjanir á Íslandi. Ég tel að við eigum að breyta þeirri niðurstöðu sem lagt er upp með í þessari þingsályktunartillögu hvað varðar virkjunarkostina í neðri hluta Þjórsár. Ég tel nægilega sterk rök fyrir því að hægt sé að gera það, þingið hafi nægar upplýsingar til að komast að niðurstöðu í málinu.

Þau rök eru notuð fyrir því að færa þessa virkjunarkosti úr nýtingarflokki í biðflokk að nýjar upplýsingar um fiskigengd hafi komið fram. Ég hef fylgst með umræðunni hér í dag og mér hefur fundist nokkuð vanta upp á að það væri rætt nákvæmlega hvaða upplýsingar það væru. Það hefur komið fram á opinberum vettvangi að stundaðar hafa verið rannsóknir á þessum þætti málsins, þ.e. fiskigengdinni, allt frá árinu 1973. Það er ekki bara Landsvirkjun sem hefur stundað þær rannsóknir, það er líka Veiðimálastofnun.

Auðvitað kann að leika vafi á þessum þáttum og það er þannig reyndar um allar framkvæmdir, hvort sem um er að ræða orkuframkvæmdir eða einhverjar aðrar, að það mun alltaf leika einhver vafi á afleiðingum viðkomandi framkvæmda. Undan því munum við aldrei sleppa. Það er enginn möguleiki að standa þannig að rannsóknum að öllum vafa verði úthýst. Ef rökin eru þau að svo lengi sem einhvers konar vafi sé uppi sé ekki hægt að ráðast í neinar framkvæmdir sjá menn í hendi sér að sátt á milli þeirra sjónarmiða að nýta náttúruna og vernda hana næst ekki.

Í rammaáætluninni er lagt upp með að fjölmargir virkjunarkostir sem hafa verið í umræðu eru settir í friðunarflokk. Um flesta þá þætti ætti að nást nokkuð góð sátt. Þegar ég horfi á málið og reyni að meta það held ég að ef þessi sátt á að nást geti hún aldrei orðið á þeirri forsendu að ef þessum skynsamlegu virkjunarkostum í neðri hluta Þjórsár verður ýtt út af borðinu eða þeim frestað að ástæðulausu verður erfitt að sannfæra þjóðina um að við þingmenn séum að taka skynsamlega á málum í þessum málaflokki.

Við stöndum frammi fyrir því, frú forseti, að okkur hefur enn ekki gengið að draga úr atvinnuleysi á Íslandi, þúsundir Íslendinga ganga enn um atvinnulausar. Ríkissjóður stendur mjög tæpt og er þá vægt að orði komist og það er alveg gríðarleg þörf á því að ráðast í fjárfestingar í íslensku atvinnulífi. Það er allt sem bendir til þess að þessar virkjanir sé hægt að reisa í mjög góðri sátt við umhverfið þó að það verði aldrei fullkomin sátt og það verði aldrei þannig að allir hv. þingmenn verði sáttir. Þarna er um að ræða umtalsverðar fjárfestingar sem munu skapa umsvif, störf og tekjur fyrir samfélagið allt og fyrir ríkissjóð. Ég er þeirrar skoðunar, frú forseti, að að þessu saman virtu, mati sérfræðinga á áhrifum þessara virkjana á umhverfið á þeim rannsóknum sem nú þegar liggja fyrir um fiskigengd í ánni og þeirri efnahagslegu stöðu sem við Íslendingar erum í, sé skynsamlegt á grundvelli sáttar um náttúruvernd og nýtingu að ráðast í þessar framkvæmdir sem allra fyrst. Þær eru vel rannsakaðar, vel undirbyggðar og vel undirbúnar og það er þörf á þeim við þær aðstæður sem við búum við núna.

Í sjálfu sér geri ég ekki athugasemd við að þetta sé sett upp eins og gert er í fyrirliggjandi rammaáætlun í þingsályktunartillögunni, þ.e. að búið sé að setja þessa virkjunarkosti í biðflokk eins og hér er um að ræða. Látum það vera, það er búið og gert, en málið mun ganga til nefndar og ég vona að í meðförum hennar verði farið ítarlega yfir þessi mál og ég hef trú á því að niðurstaða hv. þingmanna verði sú að lyktir þessa máls eigi að verða þær að ráðast í þessar framkvæmdir. Ég held að það verði íslensku samfélagi til heilla og ég sé ekki nokkur þau rök sem eru það veigamikil að það eigi ekki að fara í þessar framkvæmdir. Ég ítreka, frú forseti, að ég geri mér grein fyrir því að það verða aldrei allir sáttir. Ég tel að það verði hægt að ná góðri sátt með þjóðinni og á Alþingi um þetta mál með því að fara þá leið sem ég hef hér lagt til.