140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[17:53]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Nýlega fengu allir þingmenn þennan litla bækling í hendur, Þjórsár þúsund ár. Þar kemur ýmislegt fram og vegna þess að hv. þm. Illugi Gunnarsson varði mestum tíma ræðu sinnar í að ræða virkjanir í Þjórsá langar mig sérstaklega að spyrja hann út í það.

Meðal annars kemur fram í þessum bæklingi að á grundvelli rannsóknar World Wildlife Fund á stöðu laxastofna í Norður-Atlantshafi er ljóst að virkjun fallvatna er ein helsta ástæða þess að 57% stofna laxfiska eru annaðhvort útdauð eða á hættumörkum. Eins og hv. þingmaður veit er laxastofninn í Þjórsá stærsti sjálfbæri laxastofn á Íslandi. Ef það er þannig að málsmetandi aðilar telja raunverulega hættu á að við séum að skaða með óafturkræfum hætti þennan laxastofn, er þá ekki með virðingu fyrir varúðarsjónarmiðum, ábyrgð og varkárni einmitt rétt að setja þessa virkjunarkosti í bið til að gera frekari rannsóknir og afla frekari upplýsinga, kanna málin og komast þá þannig frekar að svokallaðri faglegri niðurstöðu, að betri niðurstöðu, og taka upplýstari ákvörðun?

Umhverfismat við Þjórsá er orðið æðigamalt og margir hafa orðið til að gagnrýna það, í gegnum árin í rauninni, þar sem meðal annars sammögnunaráhrifum virkjananna allra eru ekki gerð nægileg skil, þær eru ekki metnar nægilega saman. Telur hv. þingmaður ekki rétt að gera nýtt umhverfismat? Getur nokkur tapað nokkru á því ef við ætlum að fara fram með ábyrgð og af tilhlýðilegri virðingu fyrir upplýsingaöflun eins og við eigum að gera þegar við tökum þessar stóru ákvarðanir?