140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[17:55]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að játa að ég hef ekki skoðað þennan bækling sem þingmaðurinn vitnaði til en mun gera það og ef þar koma fram einhverjar upplýsingar sem hafa áhrif á afstöðu mína get ég gert það að umræðu þegar þetta mál kemur út úr nefnd. En ég vil benda aftur á að rannsóknir hafa staðið yfir á lífríki Þjórsár allt frá árinu 1973. Það er ekki bara Landsvirkjun heldur líka Veiðimálastofnun sem þar hefur verið að verki. Ég ætla að grípa niður í grein sem forstjóri Landsvirkjunar skrifaði í Fréttablaðið fyrir skömmu þar sem stendur:

„Við mat á umhverfisáhrifum fyrir Urriðafossvirkjun sem fram fór árið 2003 komu fram áhyggjuraddir vegna laxastofnsins í Þjórsá. Landsvirkjun voru sett margvísleg skilyrði sem uppfylla þyrfti ef ráðist yrði í byggingu virkjananna. Í kjölfarið ákvað Landsvirkjun að ráðast í frekari breytingar, umfram það sem kveðið var á um í skilyrðum Skipulagsstofnunar.“ — Ég legg áherslu á orðin „umfram það“. — „Markmið þeirra breytinga og mótvægisaðgerða er að lágmarka neikvæð áhrif þeirra þriggja virkjana í neðanverðri Þjórsá sem til umfjöllunar eru í rammaáætlun um nýtingu vatnsafls- og jarðvarma: Holta-, Hvamms- og Urriðafossvirkjun.“

Svo kemur:

„Fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir eru byggðar á niðurstöðum rannsókna og tillögum Veiðimálastofnunar.“

Ég er ekki sérfræðingur í þessum málum. En ég tel í það minnsta að menn hafi lagt upp með margháttaðar aðgerðir og það hafi farið fram mikil rannsóknarvinna akkúrat á þessum málum. Auðvitað munu menn geta, í raun og veru út í hið óendanlega ef menn ætla sér það, haft efasemdir um áhrif af þessum virkjunum. Þannig er það. Ég skora á hv. þingmann að benda mér á einhverja þá virkjun sem ráðist hefur verið í sem ekki hafa verið efasemdir um hvaða áhrif hefðu á lífríki sitt. (Forseti hringir.) Getur hv. þingmaður bent mér á einhverja slíka virkjun?