140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[17:58]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Mig langar að grípa niður á öðrum stað í þessum bæklingi sem ég nefndi áðan þar sem segir, með leyfi forseta:

„Að undanförnu hefur Landsvirkjun knúið á um samninga við landeigendur og farið fram á að þeir láti af hendi lönd sín við ána. Sums staðar hefur þeim verið vel tekið og samningar náðst, aðrir hafa ekki fengist til að láta af hendi lönd sín og vilja ekki ganga til samninga. Skoðanir fólks hafa ekki verið virtar og fólk ítrekað verið truflað við störf sín á nánast hvaða tíma sem er. Virtir vísindamenn sem látið hafa í ljós áhyggjur eru snupraðir og sagðir fara fram með fleipur. Áhyggjur fólks af jarðskjálftum og flóðahættu svo og áhyggjur af því að framkvæmdar- og hönnunaraðili vinni sjálfur hættumat af áhrifum náttúruhamfara á mannvirki og samfélag eru virtar að vettugi. Tortryggni og óeining, óöryggi og jafnvel uppgjöf hafa því einkennt samfélagið. Úlfúð hefur skapast á vinnustöðum og jafnvel innan fjölskyldna og reiði og vanmáttartilfinning gagnvart framkvæmdaraðilum og sveitarstjórnum er til staðar. Mannlífið við Þjórsá er af þessum sökum skaðað, friði vinnufélaga, fjölskyldna og samfélagsins alls er ógnað.“

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist hlutir sem þessir skipta máli þegar við erum að ræða virkjunarframkvæmdir. Skiptir það máli hvaða áhrif þessi harða orrahríð sem verður oft til við tiltekna virkjunarkosti hefur á tiltekið samfélag, líðan fólks og upplifanir? Hefði hv. þingmaður til dæmis eitthvað á móti því að gerð yrði eins konar stjórnsýsluúttekt á því hvernig stjórnvöld hafa farið fram gagnvart íbúum við Þjórsá? Telur hv. þingmaður, ef ákvörðun verður tekin um að fara í virkjanir, réttmætt að fara fram með eignarnámi þegar staðreyndin er sú að það eru bændur við Þjórsá sem vilja ekki láta löndin sín, vilja ekki gera það sem Landsvirkjun ætlast til af þeim? Vill hv. þingmaður þá að farið sé fram með eignarnámi?