140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:02]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Forseti. Eins og fram hefur komið ræðum við hér gríðarlega mikilvægt og afdrifaríkt mál og í raun er allt of stuttur tími fyrir hvern og einn þingmann að reifa allt sem þyrfti að reifa í þessum efnum á aðeins 10 mínútum. Ég ætla því að reyna að tæpa á örfáum atriðum. Þau gætu verið miklu fleiri en vonandi munu atvinnuveganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd fara sameiginlega í gegnum þessa ólíku þætti.

Ég tel rétt að byrja á því að þakka það óeigingjarna og mikla starf sem unnið hefur verið við að koma þessum áfanga á laggirnar, 2. áfanga rammaáætlunar. Gagnleg aðferðafræði hefur verið þróuð áfram sem áður var afar vanþróuð eða var jafnvel ekki til staðar. Miklu magni verðmætra upplýsinga hefur verið safnað af færu vísindafólki og þekking okkar á náttúrufari hefur aukist. Fólk hefur lagt á sig gríðarlega mikla vinnu af samviskusemi og alúð við að gera þetta jafnvel endurgjaldslaust. Slíkt ber að þakka og ekki að vanmeta þær framfarir sem orðið hafa.

Um leið er mikilvægt að við sem kynslóð, við sem ein lítil kynslóð Íslendinga, gerum okkur grein fyrir því að við erum þrátt fyrir allt að feta fyrstu sporin við að meta land, við að meta náttúruna okkar og alla þá ólíku þætti sem að því snúa. Við erum þannig á vissan hátt börn að leik með gríðarleg verðmæti í höndunum. Þess vegna verðum við að gera þá kröfu til okkar sjálfra að fara fram með yfirgripsmikilli þekkingu á ólíkum sviðum hvað þetta varðar, og þau eru mörg, og sætta okkur ekki við gloppur eða göt á neinu sviði áður en svo afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar.

Þá horfum við að sjálfsögðu fram á þann raunveruleika, sem ég tæpti á í andsvörum áðan, að rannsóknir orkugeirans eru margfalt lengra komnar en rannsóknir á náttúrufari okkar enda mun betur fjármagnaðar í gegnum tíðina. Þær eru lengra komnar en rannsóknir á þáttum eins og landslagi og ýmsu er varðar náttúrufar, rannsóknir sem varða gildi og möguleika til útivistar til framtíðar, rannsóknir sem varða ferðaþjónustuna, rannsóknir sem varða óspillt víðerni o.s.frv. Þó að við eigum afar gott og fært og öflugt vísindafólk eru þessar rannsóknir í heild sinn mun styttra á veg komnar. Leikurinn hefur ekki verið jafn og er það ekki enn, hann er mjög ójafn.

Þar af leiðandi horfum við líka fram á þann veruleika að rammaáætlun, þó að hún hafi tekið miklum framförum, var miklu nýtingarmiðaðri þegar hún var lögð fram í upphafi sem í raun var brot á því sem upphaflega var lagt fram af hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og fleirum. Fyrirmyndin kom frá Noregi þar sem þetta var á forræði umhverfisráðherra og litið á það fyrst og fremst sem umhverfismál til verndar náttúrunni. Þannig átti það upphaflega að fara fram en endaði í höndum okkar Íslendinga sem nýtingaráætlun á forræði iðnaðarráðherra. Þó að við höfum tekið stórstígum framförum í þessum efnum þá er þetta enn mjög nýtingarlituð áætlun og við þann veruleika lifum við hreinlega. Þannig hefur arfleifð okkar, þróun og saga verið. Það vantar á ýmsan hátt enn þá, eins og kemur fram í þessum umræðum, heildstætt plan, heildstæða áætlun og stratigíu og áætlun um það af okkar hálfu, okkar sem samfélags, okkar sem kynslóðar, um hvað við ætlum að nýta mikla orku og til hvers.

Við höfum á ógnarmiklum hraða, frá árinu 1997, aðeins á 14 árum, farið úr tæpum 6 teravattstundum á ári í um 17 og væntanlega bráðum 18. Álverin taka af þessu um 13 teravattstundir í stóriðjunni, 80% af framleiddri raforku í landinu.

Samkvæmt þessari tillögu er gert ráð fyrir að vinnslan geti jafnvel farið upp í 30 teravattstundir, hugsanlega allt að 40. Og Landsvirkjun ein hefur sagst ætla að ráðast í um 11 teravattstundir á næstu 15 árum. Við verðum að staldra við og íhuga hvað er raunverulega verið að tala um. Það er verið að tala um þessa mjög svo takmörkuðu auðlind. Stór hluti af henni er háður mjög miklum vafaatriðum eins og komið hefur fram í umræðum varðandi háhitann. Við ætlum sem kynslóð hér og nú að taka okkur þetta vald að nýta svona mikið af þessu. Þetta verðum við að hugsa heildstætt og spyrja okkur þeirrar spurningar hvort við eigum rétt á því að taka okkur svona mikið vald.

Samhliða þessu ættum við líka að huga að heildarumhverfisáhrifum rammaáætlunar, samlegðaráhrifum rammaáætlunarinnar allrar eins og hún liggur fyrir, í stað þess að líta á hvern kost út af fyrir sig. Svo stór áætlun hefur að sjálfsögðu sterk og mikil samlegðaráhrif. Við verðum að vera minnug þess hvað hefur glatast um leið og við hljótum að vera minnug þess hversu mikið við höfum nýtt nú þegar. Eins og ég kom að fyrr í dag hafa víðerni Íslands minnkað um 68% frá 1936–2010. Ósnortin víðerni í dag eru þvílíkir dýrgripir og við megum ekki, í því stórbrotna landi sem við búum í, vanmeta þau eða fara illa með þau.

Hér hefur verið talað þó nokkuð um háhitasvæði og svo að ég reyni að gera langt mál stutt vil ég endurtaka það sem hér hefur komið fram, hversu mikilvægt það er að við skoðum þau alveg sérstaklega, tökum mark á aðvörunarorðum vísindamanna, tökum mark og mið af reynslunni sem sýnir okkur takmarkanir og hætturnar af þessari nýtingu, ósjálfbærnina, jarðskjálftavirknina, brennisteinsmengunina, affallsvatnið sem er mengandi og að við séum jafnvel hugsanlega að menga sjálft Mývatn. Við verðum að staldra við. Það eru engar öfgar, það er skynsemi og yfirvegun og á ábyrgð okkar kynslóðar að gera það. Það verður því miður að segjast eins og er að nýting háhitasvæða hefur einkennst af einstökum sóðaskap. Nefni ég þá sem dæmi hvernig farið hefur verið fram á Þeistareykjum þar sem hægt hefði verið að nýta þetta með mun snyrtilegri og betri hætti. Það er eitthvað sem verður að fara í gegnum alveg sérstaklega, þær reglur sem við ætlum að hafa um nýtingu háhitasvæða.

Varðandi þau tilteknu svæði sem hafa verið mikið rædd, og ég sé að tími minn skreppur allt of fljótt saman, tel ég algerlega einboðið og afar mikilvægt að hafa sett Hágöngur og Skrokköldu í bið þarna rétt við rætur Vatnajökulsþjóðgarðs og uppi á hálendinu.

Varðandi Þjórsá, sem er líka mikið rædd, þá er það að sjálfsögðu á ábyrgð okkar að fara varlega þegar þar að kemur. Það þekkja allir mína skoðun í þeim efnum en það vantar sárlega rannsóknir á áhrifum á samfélagið í þeirri grunnstoð sem heitir sjálfbær þróun og við stærum okkur af. Það vantar sárlega í allri þessari vinnu, meðal annars hvað varðar Þjórsá. Því ítreka ég það sem ég sagði rétt áðan við hv. þm. Illuga Gunnarsson að að sjálfsögðu ætti að fara fram stjórnsýsluúttekt.

Svo er það Reykjanesskaginn sem ég hef komið að nokkrum sinnum í dag. Þar finnst mér gríðarlega mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir hversu einstakt svæði þetta er á heimsvísu milli alþjóðaflugvallar og höfuðborgar, við rætur borgarinnar, stórbrotin svæði sem allir eru sammála um að séu mikilvæg og kom það meðal annars fram í gögnum verkefnisstjórnarinnar — faghópur 2 sagði einmitt að líklega væri gildi slíkra svæða við höfuðborgina vanmetið. Ég mundi telja langfarsælustu leiðina til framtíðar og fyrir komandi kynslóðir að stofna eldfjallaþjóðgarð á Suðvesturlandi. Ég held að þessari kynslóð yrði þakkað það mjög í framtíðinni ef hún bæri gæfu til að fara fram með slíkum hætti því við megum ekki gleyma því að það er annars konar jákvæð uppbyggileg nýting að vernda svæði. Það er líka hagkvæmt, það gefur líka af sér og í rauninni er okkar besta virkjun í þessum efnum að bæta nýtingu núverandi virkjana sem þegar eru til staðar og fara fram með alvöruátak í orkusparnaði.