140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:15]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar góðu spurningar. Það er einmitt mjög mikilvægt, hvar í flokki sem við stöndum, að við vöndum okkur við að fara fram með málefnalegum hætti. Þegar sjávarfallavirkjanir eru nefndar held ég einmitt að það sé mjög mikilvægt mál sem við megum ekki láta hjá líða að taka inn í dæmið. Þá komum við einmitt að því sem ég hef verið að reyna að segja, þetta kemur nákvæmlega að hjarta málsins í mínum huga, að það er skylda okkar kynslóðar að fara fram eins varlega og kostur er, skoða alla möguleika í stað þess að vaða áfram, eyðileggja svæði sem hægt væri að nýta mun betur með öðrum hætti, rétt eins og Gullfoss er nú og ég sagði það fyrr í dag. Enginn sá það fyrir fyrir einhverjum áratugum, ekki nokkur einasti maður en svo myndast nýir möguleikar, annars konar viðmið eða önnur gildi. Áður en við förum að vaða í mjög svo vafasamar virkjanir, eins og til dæmis á háhitasvæðum, hljótum við að bera skyldu til að kanna aðra möguleika, setja peninga í rannsóknir á því; og ég tala ekki um að fara í orkusparnaðarátak vegna þess að orkusparnaður er að sjálfsögðu langódýrasta virkjun sem völ er á.

Þar komum við einmitt að öðrum punkti varðandi það hvar ódýrustu virkjunarmöguleikarnir liggja, bestu og hagkvæmustu. Þeir liggja í því að nýta betur þær virkjanir sem fyrir eru og þar er fullt af möguleikum, mjög sterkir og öflugir möguleikar. Við eigum að byrja á þeim skrefum sem valda sem minnstum skaða. Það er okkar ábyrgð. Það hlýtur að geta verið okkar sameiginlega sátt að ganga þannig fram.