140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:22]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég kem hér í seinni ræðu mína um þessa þingsályktunartillögu. Fyrr í dag náði ég ekki að klára alla þá punkta sem ég var með á blaði hjá mér og ætla að reyna að nota þessar tæpu fimm mínútur sem ég hef til að fara yfir restina.

Reyndar hefur komið aðeins fram í andsvörum við aðra þingmenn í dag eitt atriði sem mig langaði að velta upp. Það er vegna þess að við höfum rætt hér svolítið hvort sú niðurstaða sem hér er lögð til sem tillaga til þingsályktunar sé eins fagleg og við ætluðum upphaflega eða hvort það sé búið að setja á hana fullmikinn pólitískan svip. Það er ekkert óeðlilegt við það að ríkisstjórn á hverjum tíma geri það en þá verður að vera skýrt að menn séu að leggja fram pólitískt plagg en ekki stefnumótun sem höfð hefur verið um faglegt og víðtækt samráð og málið klárað á þann hátt alla leið, þannig að menn séu tilbúnir til að nota það sem slíkt tæki sem ég held að upprunalega hugmyndin hafi falið í sér, þegar ráðherrar Framsóknarflokksins komu með þetta fyrst fram undir lok síðustu aldar.

Eins og ég nefndi áðan hef ég rætt aðeins í andsvörum hvort ekki sé æskilegt og nauðsynlegt að koma inn með nýjan biðflokk, nýtingarflokk í bið. Ástæðan er sú að það er mjög dýrt að halda úti rannsóknarleyfum á hverju ári fyrir þann hóp sem núna er settur í biðflokk og margir sem þar eru fá ekki nægjanlega leiðbeiningu með þessari þingsályktunartillögu ríkisstjórnarflokkanna um hvert stefnir og vita ekki hvort meiningin sé að það vanti eina eða tvær rannsóknir og málið geti síðan verið tekið upp aftur innan eins árs eða tveggja ára eða jafnvel mánaða eins og einhverjir hafa nefnt. Það er erfitt að fá fjármagn til þessa. Mér finnst þetta eiga sérstaklega við um margar af vatnsaflsvirkjununum.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram í síðustu ræðum að okkar bestu kostir eru að nýta betur þær virkjanir sem við höfum í dag, en þó nokkrar vatnsaflsvirkjanir hafa líka verið mjög lengi í bígerð. Við þurfum líka að svara því hvernig við ætlum að tryggja uppbyggingu á atvinnu í landinu og þetta snýst ekki eingöngu um hvort menn séu umhverfissinnar eða virkjunarsinnar, eins og einstaka þingmenn hafa látið í veðri vaka. Það er alveg klárt að við getum náð samstöðu um að setja suma flokka í vernd og það sé skynsamlegasta nýtingin á því svæði og svo getur verið skynsamlegt að skoða betur virkjunarkosti á öðrum svæðum.

Til dæmis hefur komið fram í umræðunni að inn í aðalskipulag sveitarfélagsins Skaftárhrepps voru settir inn fjórir virkjunarkostir, misgóðir og mislangt komnir. Það er skylda okkar að svara því hvernig við ætlum að tryggja sjálfbærni þess samfélags. Það byggir fyrst og fremst á tvennu í dag, annars vegar á landbúnaði, aðallega sauðfjárrækt, og hins vegar ferðaþjónustu. Þróunin á þessu svæði hefur verið sú að þar fækkar fólki stöðugt og það eldist og samfélagið er ekki sjálfbært eins og það er í dag. Það vantar nýja atvinnustoð undir það samfélag. Þess vegna held ég að skynsamlegt hefði verið að skoða nákvæmar og betur hvort til greina komi að nýta einhvern af þeim virkjunarkostum sem þar eru.

Einnig vildi ég nota þetta tækifæri til þess að minna á þingsályktunartillögu sem við framsóknarmenn, með mig sem 1. flutningsmann, lögðum fram þar sem við vildum skoða fjórar mismunandi útfærslur varðandi raforkumál. Við vildum meðal annars skoða hvort nýtingarleyfin ættu að vera veitt fyrirtækjum í almannaeigu þegar virkjanir eru stórar en minni virkjanir, einmitt til að nýta þá kosti sem náttúran býður upp á og styrkja atvinnulíf á hverju svæði, gætu verið nýttar af einkaaðilum. Það væru virkjanir minni en 5–10 megavött eða jafnvel upp undir 15 megavött, en það er sambærilegt og við þekkjum frá Noregi.

Þessar fimm mínútur liðu nú ansi fljótt, frú forseti, og ég ætla að enda mál mitt á því að segja (Forseti hringir.) að ég vona að vinnan verði fagleg í atvinnuveganefnd. Það er mikil vinna fram undan og ég veit ekki hvort það er skynsamlegt að reyna að keyra hana í gegn á þeim stutta tíma sem eftir er til vors.