140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:28]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Sú umræða sem hefur farið fram um rammaáætlun sem svo er kölluð, hefur á margan hátt verið ágæt og gagnleg og mjög margt sem drepið hefur verið á í henni. Ég ætla aðeins að dvelja við þá umræðu sem hefur verið dálítið ríkjandi í dag, hvort með óeðlilegum hætti hafi verið staðið að málum á lokaáfanga þessarar vinnu. Vísað hefur verið til þess að á sínum tíma voru samþykkt lög sem fólu í sér að þegar verkefnisstjórnin skilaði frá sér verkefni sínu, í þessum mikla doðranti sem við höfum hér undir höndum, var búið að lögfesta að þá skyldi að nýju hefjast samráð við marga hópa.

Út af fyrir sig get ég tekið undir að þetta getur verið lýðræðisleg aðferð við að leiða fram einhverja niðurstöðu, að kalla eftir viðhorfum sem flestra á sem flestum stigum málsins. Það sem stendur hins vegar eftir í þessari umræðu er að svo óhönduglega hefur greinilega tekist til við þetta verklag, sem Alþingi markaði með lagasetningu í góðri trú og tiltölulega góðri sátt, að við stöndum í þeim sporum núna að mikill ágreiningur er um málið. Ágreiningurinn lýtur ekki að þeirri vinnu sem unnin var fram að því að ríkisstjórnin tók við þessu mikla verkefni frá verkefnisstjórninni, heldur lýtur þessi ágreiningur og tortryggni fyrst og fremst að því verklagi sem var viðhaft eftir að ríkisstjórnin tók þetta í sínar hendur.

Þetta er auðvitað ekki alveg að tilefnislausu. Við vitum að á bak við þetta allt saman, á bak við þetta samráð sem mér finnst frekar hafa verið sýndarsamráð, er auðvitað pólitískur veruleiki. Hann er einfaldlega sá að það hefur legið fyrir sem yfirlýst afstaða til að mynda annars stjórnarflokksins að það eigi að fjölga mögulegum virkjunarkostum sem fari annars vegar í biðflokk eða verndarflokk. Þetta liggur fyrir í flokkssamþykkt frá landsfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs frá 28.–30. október 2011. Þetta er hin pólitíska afstaða og hún er vitaskuld bakgrunnurinn að því sem gerðist eftir að ríkisstjórnin tók þetta mál í sínar hendur. Og hvernig sem menn veltast um í þessari umræðu er niðurstaðan algjörlega ótvíræð að því leytinu að veruleikinn sem við stöndum í núna er sá, að mikil tortryggni hefur komið fram, m.a. í ræðum í þinginu í dag og fyrr í þessari umræðu, á það verklag sem ríkisstjórnin viðhafði. Það er auðvitað áhyggjuefni. Það er það sem við hljótum að þurfa að læra af þegar við skoðum þessi mál í einhverju samhengi.

Þess vegna segi ég að þetta samráð var í raun og veru sýndarsamráð vegna þess að niðurstaðan var alltaf gefin, hin pólitíska niðurstaða var fundin áður. Síðan var það verkefni þeirra sem höfðu með málið að gera í ríkisstjórninni að reyna að sýna okkur fram á að sú niðurstaða sem ríkisstjórnin legði fram væri afsprengi þess samráðs sem fór fram í síðasta þætti ferilsins. Gleymum því ekki að verkefnisstjórnin sjálf efndi til gríðarlega mikils samráðs. Það kemur til dæmis fram í þessari bók á bls. 150–152 að haldnir voru alls 60 fundir, ýmist til samráðs og/eða kynningar á verkefnum. Menn höfðu samráðsfundi með stórum fjöldahreyfingum, frjálsum félagasamtökum, hagsmunasamtökum, Alþýðusambandi Íslands, svo dæmi sé tekið. Það var rætt við orkufyrirtækin, haldnir sérstakir kynningarfundir með sveitarfélögum og fyrir þingflokka, það voru sérstakir kynningarfundir með sveitarstjórnarmönnum, þetta var rætt á ótal ráðstefnum og þingum o.s.frv. Samráðið var sannarlega til staðar.

Það sem síðar gerðist í lúkunum á hæstv. ríkisstjórn varpaði skugga á þetta samráðsferli. Mönnum er það auðvitað ljóst að þarna var verið að fullnusta og reyna að ljúka ákveðnum ágreiningi innan stjórnarflokkanna og milli þeirra og það var gert með þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir. Þess vegna er hún því miður ekki afurð eðlilegs samráðs, hún er afurð pólitísks samráðs (Forseti hringir.) sem átti sér stað innan stjórnarflokkanna, á milli þeirra. Hið eiginlega samráð var búið að eiga sér stað og (Forseti hringir.) og var þess vegna tekið tillit til þess í vinnu verkefnisstjórnarinnar.