140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[19:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi spyrja hæstv. fjármálaráðherra bæði hvað hafi breyst í þessu máli, og hvenær, sem gerði það að verkum að hún og ríkisstjórnin töldu sér skylt að fara þá leið sem lögð er til með þessu frumvarpi, þ.e. að óska eftir heimild Alþingis með þeim hætti sem hér er gert. Þegar fjáraukalög voru afgreidd í nóvember og þegar fjárlög voru afgreidd í desember var ekkert minnst á að nauðsynlegt væri að fara í lagasetningu af því tagi sem hér er lögð til. Ég velti fyrir mér hvenær ráðherra og ríkisstjórn hafi orðið ljóst að það þyrfti að óska eftir sérstakri lagaheimild.

Þetta segi ég vegna þess að ég var í hópi þeirra þingmanna sem höfðu efasemdir um að rétt væri staðið að málum í sambandi við fjáraukalögin og reyndar fjárlagaafgreiðsluna líka, hafði á tilfinningunni að þarna væri verið að fara (Forseti hringir.) bakdyramegin að þessu verkefni. Þess vegna leikur mér forvitni á að vita hvenær ríkisstjórnin hafi áttað sig á því (Forseti hringir.) að það væri nauðsynlegt að fara í sérstaka lagasetningu.