140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[19:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get út af fyrir sig verið sammála hæstv. ráðherra um að sennilega er þetta rétta leiðin. Ég vek bara athygli á þessu atriði vegna þess að ég minnist þess ekki í umræðu um fjáraukalögin í nóvember og umræðu um fjárlög í desember að þessarar nauðsynjar hafði verið getið vegna þess að þá var talað með þeim hætti, m.a. af forvera hæstv. ráðherra, hæstv. ráðherra Steingrími J. Sigfússyni, að þær heimildir sem var annars vegar að finna í fjáraukalögum og hins vegar í fjárlagafrumvarpinu væru fullnægjandi til að hefjast handa. Það átti skilja að með heimildinni í fjáraukalögunum í nóvember 2011 væri komin forsenda til að fara strax í gang. Það var talað þannig þegar fjáraukalagafrumvarpið var afgreitt og þess vegna lá svo mikið á að koma þessu inn í fjáraukalögin. Það átti bara að hefjast handa þegar í stað (Forseti hringir.) og þess vegna kom mér á óvart (Forseti hringir.) þegar ríkisstjórnin virtist átta sig á því að það væri nauðsynlegt að fara þessa lagasetningarleið.

(Forseti (ÁI): Forseti biður hv. þingmenn að virða ræðutíma. Hann er ein mínúta í báðum umferðum.)