140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[19:12]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að fá viðbrögð hæstv. ráðherra við umsögn Ríkisábyrgðasjóðs. Það kemur fram að hann telji raunávöxtunarstigið við endurfjármögnun á láninu vera á bilinu 6,8–7,3%. Helsta haldreipi hæstv. ráðherra er þessi skýrsla IFS Greiningar en í henni kemur fram að sé 7% raunávöxtunarkrafa á langtímaláninu séu 100% líkur á greiðslufalli. Því kalla ég eftir skoðun hæstv. ráðherra á þessari umsögn Ríkisábyrgðasjóðs. Gerir hæstv. ráðherra athugasemdir við hana?

Svo vil ég líka segja að mér finnst dálítið bratt að koma hingað rétt eftir bankahrunið með breytingar á lögum til að reyna að komast fram hjá lögunum um ríkisábyrgðir.