140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[19:22]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að nota andsvarsformið til að koma örlítilli athugasemd á framfæri án þess að ég sé að óska eftir viðbrögðum frá hæstv. ráðherra sérstaklega.

Vísað var til þess í framsöguræðu ráðherrans að Vaðlaheiðargöng væru á samgönguáætlun. Það er rangt. Vísað er til Vaðlaheiðarganga í samgönguáætlun en það er ekki tímasett framkvæmd og skilyrðin og forsendurnar fyrir því að ráðast í Vaðlaheiðargöng af minni hálfu sem ráðherra samgöngumála eru alveg skýrar. Framkvæmdin verður að rísa algerlega undir sjálfri sér með vegtollum. Upphaflega átti að ráðast í Vaðlaheiðargöng með 50% fjármagni frá ríkissjóði og 50% með veggjöldum. Horfið var frá þessu. Ég hef mjög miklar efasemdir um þær forsendur sem hér er byggt á og þegar málið var afgreitt út úr ríkisstjórn hafði ég fyrirvara á því. Sá fyrirvari stendur enn og ég hlusta af athygli á þær umræður sem hér fara fram, (Forseti hringir.) sérstaklega á það sem fram hefur komið frá samgöngunefnd þingsins þar sem brigður eru bornar á þá útreikninga sem fram hafa verið reiddir.