140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[19:26]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um heimild til handa ráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

Þetta mál á sér nokkuð langa forsögu. Seinasta áratuginn, einn og hálfan áratuginn, hafa verið uppi hugmyndir um að greiða fyrir samgöngum milli Þingeyjarsýslna og Akureyrar eða Eyjafjarðarsvæðisins með jarðgöngum. Frá upphafi hafa þær hugmyndir gengið út á það að um einkaframkvæmd verði að ræða.

Málin hafa þróast þannig að nú erum við komin á það stig að stofnað hefur verið félag og inn í það hefur verið sett hlutafé frá sveitarfélögum, frá ríkinu og frá einkaaðilum til að standa straum af þessum göngum. En vegna mikils óróa og mikillar áhættufælni í heiminum og að þessum göngum fylgi viss áhætta, vissulega, eins og öllum framkvæmdum af slíkri gerð, þá hefur ekki reynst unnt að fjármagna framkvæmdina fyrir fram á einkamarkaði. Það var reynt með því að ganga til samninga við lífeyrissjóðina en þar stoppuðu menn á ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna. Því hefur orðið úr að ríkissjóður ætlar sér að ábyrgjast á framkvæmdatímanum og á upphafsrekstrarárum ganganna lánsfé sem þarf til að byggja þessi göng.

Mikil deila hefur staðið um þetta. Sitt sýnist hverjum í málinu og ef maður reynir að greina deiluna, um hvað hún snýst, þá virðist hún snúast fyrst og fremst um umferðarspár. Vegagerðin, stofnun okkar Íslendinga sem fer með samgöngumál og vegamál, hefur gert umferðarspár fyrir göngin en brigður hafa verið bornar á þær umferðarspár. Einkafyrirtæki úti í bæ var fengið til að fara yfir forsendur sem Vaðlaheiðargöng hf. hafa gefið sér við göngin og þar hefur áhættan verið metin þannig að hún sé ásættanleg. Jafnframt segir fjármálaráðuneytið í umsögn sinni að ýmsir óvissu- og áhættuþættir séu tengdir þessu fjárfestingarverkefni en „að öllu virtu má þó telja að fyrir liggi fullnægjandi upplýsingar og mat á forsendum áætlana um uppbyggingu Vaðlaheiðarganga, framkvæmd og rekstraráætlun.“

Þannig er mál með vexti að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ríkið taki allsherjarveð í Vaðlaheiðargöngum hf. Það tekur veð í hlutabréfum fyrirtækisins, það tekur veð í öllum eignum fyrirtækisins og það tekur veð í tekjustreyminu sem er áætlað að verði af göngunum. Því er óhætt að segja að hér sé raunverulega allt tekið að veði sem hægt er að taka að veði þannig að þeir sem standa að því að borga hlutafé inn í þetta aðrir en ríkið, þ.e. sveitarfélögin og einkaaðilar sem hafa lofað hlutafé inn í þetta, trúa a.m.k. það mikið á verkefnið að þau eru tilbúin til að hætta peningum sínum og þó að (Gripið fram í: … fyrir skattgreiðendur?) allt fari á versta veg þá muni ríkið eignast félagið.

Þá er spurningin: Hvað stendur þá eftir? Ef við tölum fyrst aðeins um áhættuna í þessu, ef við gerum ráð fyrir að allar verstu spár rætist þá er ljóst að þetta verkefni fellur á ríkissjóð, að borga af þeim lánum sem þarf að taka til að standa undir uppbyggingunni. Það hefur verið látið þannig í umræðunni að með því sé ríkissjóður búinn að tapa öllum þeim lánum sem ríkissjóður mun ábyrgjast í þessu. En er það alveg rétt? Er það ekki þannig að vegna allsherjarveðsins eignast ríkið einfaldlega félagið, það eignast tekjustraumana sem koma að verkefninu og það eignast allar eignir verkefnisins. Ef allt færi á versta veg og við tækjum verstu mögulegu spá mundu 2–3 milljarðar falla á ríkissjóð. Hver yrði þá niðurstaðan af því? Jú, niðurstaðan yrði sú að ríkissjóður hefði eignast sín ódýrustu jarðgöng frá upphafi, hefði eignast jarðgöng fyrir 2–3 milljarða. Þetta er miðað við allra, allra verstu spá.

En þetta er ekki það sem ég spái, alls ekki. Ég hef ágætisreynslu af því að fara yfir verkefni eins og þessi. Ég man til dæmis eftir því að þegar við vorum að fara yfir forsendur fyrir Hvalfjarðargöngum, fyrir Sumitomo á sínum tíma, þá heyrðum við miklar hrakspár um að það mundi enginn fara þessi göng, það mundi enginn þora að fara undir sjóinn, það mundu allir leggja leið sína um Hvalfjörðinn vegna þess að þar væri svo fallegt o.s.frv. En myndin reyndist önnur. Umferðarspáin sem gerð var reyndist röng vegna þess að umferðaraukningin varð margföld á við það sem lagt var upp með. Þetta hefur verið reynslan í tengslum við flestöll jarðgöng sem við Íslendingar höfum byggt og mjög algengt að það sé leiðrétt fyrir þessu vanmati, t.d. í Noregi þar sem mikið er byggt af jarðgöngum.

Af hverju skyldi ég vera bjartsýnn á göngin og ekki efast um umferðarforsendur? Það er vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að umferðarforsendurnar fyrir Vaðlaheiðargöng eru mjög hógværar. Þar er ekki gert ráð fyrir uppbyggingu í Þingeyjarsýslum. Ljóst er að nú er byrjað að virkja á Þeistareykjasvæðinu, verið er að virkja í Bjarnarflagi, verið er að stækka Kröflu og það er ætlun þeirra sömu stjórnvalda og eru að fara fram með þetta frumvarp að þar verði byggt upp iðnaðarsvæði, stórt iðnaðarsvæði. Það iðnaðarsvæði mun kalla á aukna flutninga milli Eyjafjarðarsvæðsins og Þingeyjarsýslna. Miðað við að þær áætlanir gangi eftir er í mínum huga um mikið vanmat á umferðarspá að ræða, þannig að ég held að hið ranga mat sem hugsanlega er í þessu sé of varkárt fremur en hitt.

Við sáum úttekt sem ágætisverkfræðingur hér á landi gerði fyrr í vetur eða haust. Mikið hefur verið stuðst við þá umferðarspá sem þar kemur fram af andmælendum Vaðlaheiðarganga. Sú spá gerir ráð fyrir að frá þeirri umferð sem var árið 2008 muni umferð dragast saman og hún verði ekki orðin sambærileg og var það ár fyrr en að 20 árum liðnum. Og trúi nú þeirri spá hver sem vill. Samantekið tel ég ekki vera veilur í þessari umferðarspá. Farið hefur verið ágætlega yfir þetta mál af Vegagerðinni, búið er að fara vel yfir málið af IFS Greiningu. Það liggur fyrir mat frá fjármálaráðuneytinu, frá Ríkisábyrgðasjóði o.s.frv. En eins og ég segi ef allt fer samt á versta veg þá verður það aldrei verra en svo að íslenska ríkið eignast jarðgöng fyrir 2–3 milljarða, ef allt fer á versta veg.

Hitt er annað mál, og það tel ég vera gagnrýnisvert, hvernig haldið hefur verið á þessu máli. Ekki hefur verið haldið á því eins og hefði átt að gera. Það hefur verið ruglingslega fram sett, slegið hefur verið úr og í með vissa hluti í sambandi við það og plantað hefur verið í gegnum þennan rugling mikilli tortryggni. Og það hefur skemmt fyrir málinu. (Innanrrh.: Ert þú að eyða henni?) Ég held að hæstv. innanríkisráðherra hafi ekki unnið að því að eyða þeirri tortryggni heldur ýtt undir hana. Kannski er það vegna þess að hann sér ofsjónum yfir framkvæmdunum vegna þess að á kærleiksheimili vinstri grænna vill svo til að þar er einn félagi hans í kjördæminu og gæti fengið eitthvað út á þetta sem hann vill ekki, en það er annað mál.

Heilt á litið tel ég það gott mál að farið sé út í Vaðlaheiðargöng, áhættan sé ásættanleg og það beri að styðja þetta frumvarp. En ég vil ítreka enn og aftur, það hefði átt að halda mun betur á málinu til að sú tortryggni sem virðist hafa skapast gagnvart því hefði ekki orðið til.

Að því sögðu segi ég að ég mun styðja þetta mál og tel að það sé umræddu landsvæði mjög til framdráttar og Íslendingum öllum til lengri tíma litið.