140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[19:42]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012 kemur fram að handbært fé frá rekstri er 130–140 milljarðar samkvæmt áætlun. Það er ekki því rétt hjá hv. þingmanni að ástæðan fyrir því að Norðfjarðargöng eru til dæmis ekki sett á áætlun og þau byggð sé sú að ekki séu til peningar fyrir þeim. Ástæðan fyrir því er að ríkissjóður eða réttara sagt stjórnvöld, ríkisstjórnin vilja ekki bóka á rekstur framkvæmdakostnaðinn fyrir Norðfjarðargöng. Ástæðan er ekki sú að ekki séu til peningar. Við, ég og hv. þingmaður, vitum að það er mikið handbært fé frá rekstri hjá ríkissjóði en framkvæmdir og aðgerðir ríkisstjórnarinnar snúast ekki um hvernig lausafjárstaðan er, heldur hvernig rekstrarstaðan er hjá ríkissjóði.