140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[19:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að mér finnst dálítið bratt svona örfáum árum eftir hrun að við ræðum hér mál þar sem markmiðið er í raun að komast fram hjá lögum um ríkisábyrgðir. Verkefnið sem við ræðum hér, hvernig á að fara í þessa framkvæmd, jarðgöng undir Vaðlaheiði, er að mínu viti algerlega óboðlegt. (PHB: Þetta er gríska leiðin.) Hv. þm. Pétur H. Blöndal segir: Jú, þetta er gríska leiðin. Þetta er sannarlega gríska leiðin að fara fram með málið með þessum hætti.

Áður en ég fjalla efnislega um málið vil ég koma aðeins inn á hvernig haldið hefur verið á þessu máli. Hv. umhverfis- og samgöngunefnd fékk það verkefni að fara yfir stöðu málsins og greina áhættuþætti áður en hún skilaði því samviskusamlega, eins og sú ágæta nefnd gerir yfirleitt, inn í þingið þeim upplýsingum sem við hv. þingmenn höfum ekki þegar við tökum afstöðu til málsins. Ég geri alvarlegar athugasemdir við að það skuli hafa tekið svo langan tíma að fá svar við þeirri einföldu og eðlilegu ósk nefndarinnar að fá að gera óháða úttekt á málinu, að hv. umhverfis- og samgöngunefnd hafi þurft að bíða eftir svari í sex vikur eftir því og að þá skuli það koma fram að hv. forsætisnefnd telji ekki ástæðu til þess vegna þess að framkvæmdarvaldið sjálft, þ.e. fjármálaráðuneytið, hafi tekið ákvörðun um að gera úttekt á málinu.

Síðan getum við rætt lengi um skýrslu IFS Greiningar sem slær fullt af varnöglum við þær niðurstöður sem þar koma fram, hvort heldur sem er við rekstur á göngunum eða innheimtu á veggjöldum en aðallega þó varðandi kröfuna um vaxtastigið þegar framkvæmdir verða fjármagnaðar eftir 2018, eins og gert er ráð fyrir. Einnig má nefna umferðarspá í því sambandi og margt fleira. Ekki er gert ráð fyrir því að félagið greiði tekjuskatt þó svo að fyrirtækið Spölur, sem rekur Hvalfjarðargöngin, þurfi að gera það, og svo margt og margt fleira.

Það sem sló mig töluvert þegar IFS Greining kom fyrir hv. fjárlaganefnd og kynnti niðurstöður sínar og ég fór að spyrja um kostnaðinn, hvort þeir hefðu greint allan heildarkostnaðinn vegna þess að lagt hafði verið út í kostnað áður, kom í ljós að IFS Greining taldi að það væri að hlutaféð, sem þá var 400 millj. kr., lægi inni á bankareikningi félagsins. IFS Greining vissi það ekki fyrr en degi eftir að hún gaf út skýrsluna að hlutaféð var ekki inni á bankareikningi heldur var búið að taka af hlutafénu þann kostnað sem þegar hafði hlotist af verkinu. Það er mjög sérkennilegt að standa hér sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins og gera athugasemdir við einkaframkvæmdir hæstv. vinstri stjórnar, það er dálítið einkennileg staða. En það sem pirrar mig mjög mikið í þessu máli er að ekki sé rætt um hlutina eins og þeir eru. Ég er alveg tilbúinn til að ræða þá og ég er algerlega á móti því, svo það komi skýrt fram, að fara í þessa einkaframkvæmd vegna þess að sú ákvörðun og það sem boðað er stendur ekki á traustum grunni.

Ég hef þá trú að á endanum muni töluverðir fjármunir lenda á ríkissjóði. Auðvitað ætti þetta verkefni að vera inni í samgönguáætlun, ég er alveg tilbúinn að taka umræðu hvenær sem er og við hvern sem er. Þeir hv. þingmenn sem eru fylgjandi þessu verkefni og vilja færa það framar en til að mynda Dýrafjarðargöng eða Norðfjarðargöng hafa þau rök í málinu að þar skuli innheimta veggjald. Það eru klárlega rökin í málinu, og eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson sagði áðan verða þetta hugsanlega ódýrustu jarðgöng sem er hægt að fara í fyrir hönd ríkissjóðs. Ég get í sjálfu sér tekið undir það að. Ef maður reiknar út kostnað við þessi jarðgöng og hugsanleg veggjöld af þeim og miðar svo við göng sem borguð eru alfarið úr ríkissjóði eru það ákveðin rök í málinu. En ræðum þá hlutina eins og þeir eru en ekki undir rós varðandi það að göngin muni að öllu leyti standa undir sér með veggjöldum, vegna þess að það er ástæðan fyrir því að þessi göng eru sett í forgang. Þau eiga að standa undir sér algerlega með veggjöldum. Um það hef ég þó allverulegar athugasemdir og hef raunar enga trú á því að þessi göng muni gera það.

Förum yfir málið og skoðum hvernig það kom upphaflega inn til þingsins. Fyrst var ákveðið að stofna eitt hlutafélög, síðan tvö hlutafélög og þegar menn hætta við að fara í framkvæmdir á suðvesturhorninu vegna þess að fram koma mótmæli við veggjöldum verð ég að viðurkenna þá er að ég búinn að fá nóg, þ.e. af því að menn tali með einum hætti á einum stað og öðruvísi annars staðar þar sem þeir segja bara það sem fólk vill heyra. Mér finnst það ekki boðlegt, sérstaklega ekki í ljósi þess ég hef stórar efasemdir um að við munum nokkurn tíma ná tökum á ríkisfjármálunum ef við ætlum að halda áfram að haga okkur eins og lagt er til hér, þá munum við ekki ná tökum á ríkissjóðnum vegna þess að menn eru sífellt að blekkja sjálfa sig.

Þegar rætt var um þetta mál var alltaf talað um að fara svokallaða norska leið, að hafa svokölluð skuggagjöld, þ.e. greiðsla frá ríkissjóði til að standa undir verkinu. Reiknað var með því að ríkið kæmi inn í verkefnið með sitt framlag og veggjöldin líka því að það var mat manna að göngin mundu ekki standa undir sér nema þessi skuggagjöld kæmu inn í verkið. Síðan er öllu snúið á haus. Menn þurfa að taka pólitíska umræðu heima í héraði um það hvort þeir ætla að raða verkefninu fremst í forgangsröðina en þeir vilja samt ekki horfast í augu við að hugsanlega muni einhver kostnaður lenda á ríkissjóði. Auðvitað eigum við að ræða málið út frá þeim forsendum.

Það er mjög athyglisvert að skoða skýrslu IFS Greiningar, sem er mjög vönduð og fín. Ég hef reyndar gert athugasemdir við að þetta skuli vera unnið af framkvæmdarvaldinu og að hv. umhverfis- og samgöngunefnd hafi í raun verið dregin á asnaeyrunum vegna þess að hv. samgöngunefnd vildi og ætlaði sér að vinna þá vinnu sem henni var falin. Við hinir hv. þingmenn sem ekki sitjum í hv. umhverfis- og samgöngunefnd treystum auðvitað því fólki sem þar er, að það komi réttum upplýsingum til okkar þannig að við getum tekið upplýsta ákvörðun um mál, en svo fer framkvæmdarvaldið fram með þessum fruntalega hætti, er það ekki ágætisorð þessa dagana?

Það þarf ekki að lesa lengi í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs til að sjá að þar stendur í raun alveg skýrt að 100% líkur séu á greiðslufalli. (Gripið fram í.) Það er niðurstaðan. Ríkisábyrgðasjóður er með mjög góða umsögn um málið, fer yfir fullt af þáttum og segir hér, af því að gerðar eru athugasemdir úr hliðarsal að ég fari ekki með rétt mál, orðrétt í umsögninni, með leyfi forseta:

„Að framansögðu telur Ríkisábyrgðasjóður út frá sögulegum gögnum að vaxtastig áherslulausra vaxta muni liggja á bilinu 4,0–4,5% árið 2018 að viðbættu 2,8% áhættumati vegna endurfjármögnunar á láni til Vaðlaheiðarganga án ríkisábyrgðar yrði raunvaxtastigið í 6,8–7,3% …“

Í umsögninni er farið yfir hvernig það er fundið út, tekið er meðaltal aftur í tímann og er það mjög faglega unnið að mínu mati. Síðan er í raun tekið undir það í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs sem kemur fram í umsögn hjá IFS Greiningu. Orðrétt stendur þar, með leyfi forseta:

„Samkvæmt hermilíkani IFS Greiningar jafngildir 7% raunávöxtunarkrafa af langtímaláninu 100% líkum á greiðslufalli.“

Ég get bara ekki skilið það öðruvísi, þegar það er mat Ríkisábyrgðasjóðs að lánið muni vera 6,8–7,3%, sem er þá að meðaltali 7,05%, að í raun og veru séu 100% líkur á greiðslufalli á félaginu. Það stendur skýrum stöfum, ég get ekki skilið það öðruvísi. Síðan eru auðvitað fullt af atriðum sem skoða hefði þurft betur og hefði það verið gert ef farið hefði fram fagleg og hlutlaus úttekt sem hv. umhverfis- og samgöngunefnd hefði fengið umboð og leyfi til að gera. Framkoma framkvæmdarvaldsins gagnvart hv. umhverfis- og samgöngunefnd er mér algerlega óskiljanleg. Eftir allar þær ræður sem ég hef hlustað á þann stutta tíma sem ég hef setið á þingi, um að vanda þurfi vinnubrögðin og styrkja þurfi þingið og þar fram eftir götunum er það oftast þannig að þegar á reynir eru þær áherslur látnar víkja. Það er bara vegna þess að menn detta í þann gír að vilja ræða hlutina með öðrum hætti.

Síðan kemur líka fram hér það sem gert er ráð fyrir og menn hafa efasemdir um og ég þarf í raun og veru ekki að fara mjög ítarlega yfir það því að það gefur augaleið að stærsti áhættuþátturinn eru auðvitað vaxtakjörin á langtímaláninu. Ég hef aldrei fengið nægilega skýringu á því, og við fengum hana ekki þegar beiðnin var sett inn í fjáraukalögin á sínum tíma, hvers vegna slitnaði upp úr viðræðum við lífeyrissjóðina um að fara í þessa framkvæmd. Ég hef oft spurt mig þeirrar spurningar. Er það vegna þess að lífeyrissjóðirnir eru frekir varðandi ávöxtun eða höfðu þeir bara ekki trú á verkefninu? Það hefði að mínu mati þurft að koma skýrt fram og ég held að það væri æskilegt fyrir hv. fjárlaganefnd — ég sé að formaður hennar, hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, situr í þingsalnum og ég vænti þess að sú nefnd fái þetta mál til umsagnar — að fá skýringar á því.

Ef við förum að hugsa málið rökrétt, eins og stundum er gott að gera, má spyrja: Ætlar ríkissjóður að fara að gefa út skuldabréf eða ríkisbréf? Hverjir eru stærstu kaupendurnir að ríkisverðbréfum? Eru það ekki akkúrat lífeyrissjóðirnir? Ég hefði talið skynsamlegra að leggja málið upp með öðrum hætti, eins og kemur reyndar fram í niðurstöðu í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs, að fara í heildarútboð á verkinu áður en farið er af stað því að núna erum við með gjaldeyrishöft. Það eru nánast engir möguleikar til fjárfestingar innan lands eða mjög litlir, skulum við segja, nema þá í gegnum ríkisverðbréf. Af hverju er það ekki gert þannig að menn geti þá sett inn vara og reglur um að fara þá í hina áttina, þ.e. að fara lengra með lánið en gert er ráð fyrir, því að það er fyrirsjáanleg skýring? Það sagði ég strax á fundi fjárlaganefndar þegar ráðuneytið kom með þessa beiðni. Auðvitað lengjum við þá bara í láninu ef það dugar ekki veðdeildinni. Það er sú fyrirséða leið sem fara ætti.

Svo er líka annað sem kemur fram um þá breytingu sem orðið hefur á hlutafénu, sem hæstv. ráðherra kom ekki inn á áðan, og væri kannski ágætt að hæstv. ráðherra kæmi í andsvar og útskýrði það nánar fyrir mér vegna þess að nú er búið að auka hlutaféð upp í 600 millj. kr. og í raun og veru búið að breyta hlutföllunum í félaginu þó svo að ábyrgðin gagnvart lánveitingunni sé öll hjá ríkissjóði. Það kemur reyndar fram í textanum að fara þurfi yfir þá hluti áður en málið er klárað. En ég hefði viljað fá aðeins meiri innsýn í hvað liggur þarna að baki.

En fyrst og fremst vil ég segja þetta, hæstv. forseti: Verið er að ræða þetta mál á vitlausum forsendum. Það hefði verið skynsamlegra að taka það inn í samgönguáætlunina og ræða þá forgang þessa verkefnis á önnur verkefni vegna veggjaldanna og taka eðlilega, gagnlega og heiðarlega umræðu um hlutina eins og þeir eru en ekki eins og menn telja að þeir verði.