140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[21:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var eitt atriði sem ég vildi biðja hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur sem formann umhverfis- og samgöngunefndar að rifja upp með mér. Það er atburðarásin sem mörgum okkar þótti svolítið sérkennileg í sambandi við beiðni nefndarinnar um óháða úttekt á því verkefni sem hér er til umræðu. Ég velti fyrir hvort hv. þingmaður gæti rifjað aðeins upp með okkur í þessari umræðu hvaða hugmyndir voru uppi í nefndinni í haust þegar þessi mál voru þar til umfjöllunar — og kannski um leið að hvaða leyti þau atriði sem við vorum að velta fyrir okkur greina sig frá því sem t.d. IFS Greining gerði fyrir fjármálaráðuneytið og ef hv. þingmaður hefur tíma til að fara örlítið yfir það hvaða þætti hún telur að eigi eftir að skoða í sambandi við þetta verkefni þannig að allar bestu mögulegu upplýsingar liggi fyrir.