140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[21:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Ég er að velta fyrir mér hvort hv. þingmaður muni til þess að sú tillaga sem í rauninni felst í þessu frumvarpi, um lögbundna ríkisábyrgð á þessu verkefni, hafi verið til umræðu þegar við vorum að fjalla um þetta mál í nóvember og desember innan nefndarinnar þegar ýmsir gestir komu fyrir okkur og eins í þinginu þegar fjáraukalög og fjárlög voru til umræðu.

Ég spyr að gefnu tilefni vegna þess að ég man ekki til þess að þetta hafi verið nefnt. Þessu skaut upp í umræðunni, ef ég man rétt, einhvern tíma eftir áramót en mér kann auðvitað að skjátlast í þeim efnum. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður deilir (Forseti hringir.) þessum minningum með mér, ef svo má að orði komast.