140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[21:37]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni, við deilum þessum sömu minningum um málið. Þetta kom aldrei til tals og var ekki rætt eða sett fram. Þótt ég telji frumvarpið vera mjög gallað og í reynd ekki boðlegt er það samt ákveðin viðurkenning á því sem við vorum einmitt að segja, að ekki væri hægt að ganga svona fram eins og ekkert væri, að það ætti bara að samþykkja þetta án þess að nokkuð lægi fyrir um málið. Það var bara vegna þrýstings að skýrsla var svo gerð, þótt hún væri því miður ekki á okkar könnu. Það var af sjálfsdáðum sem Pálmi Kristinsson kom með skýrslu sína og það var vegna óbeins þrýstings líka sem upp kom úr kafinu að Hagfræðistofnun háskólans hafði skoðað þetta. Þetta er hárrétt hjá hv. þingmanni en samt ákveðin viðurkenning á því að fara verði fram með öðrum hætti en gert var.