140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[21:38]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og verð að segja að ég hef heyrt þingmanninn ræða þessi mál áður í fjölmiðlum. Ég á ekki sæti í nefndinni þannig að ég lærði mikið af ræðu hv. þingmanns.

Það eru alvarlegir hlutir sem hér eru settir fram og það að velta því upp hvort hér sé gengið á svig við lög um ríkisábyrgð og að litið sé fram hjá athugasemdum eru stór orð.

Ég verð líka að lýsa því hér að ég er hlynnt Vaðlaheiðargöngum. Þau yrðu ekkert verri göng en önnur göng og allt í góðu með það. En ég deili því með hv. þingmanni að ég hef miklar efasemdir um þetta verklag og þess vegna er ég andvíg því hvernig þetta mál hefur verið unnið.

Það sem mér leikur forvitni á að vita, þar sem hv. þingmaður er formaður í umhverfis- og samgöngunefnd, er hvort henni sé kunnugt um að fallið hafi til mikill kostnaður við undirbúning Vaðlaheiðarganga til þessa og hver hafi borið þann kostnað, hvort skattgreiðendur hafi þurft að borga og hvort það hafi þá verið fjárheimildir fyrir því, hvar þess hefur séð stað í fjárlögum, ef hv. þingmaður gæti svarað þessum spurningum.