140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

greiðsla ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota.

686. mál
[21:45]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, nr. 69/1995, með síðari breytingum. Tilgangur umræddra laga frá 1995 er að styrkja stöðu brotaþola með þeim hætti að ríkissjóður ábyrgist að hluta til bætur fyrir líkamstjón og miska vegna tjóns sem leiðir af broti á almennum hegningarlögum.

Samkvæmt núgildandi lögum greiðir ríkissjóður að hámarki 2,5 millj. kr. vegna líkamstjóns og 600 þús. kr. vegna miska. Bætur vegna einstaks verknaðar eru þó ekki greiddar nema höfuðstóll bóta nái að lágmarki 400 þús. kr. Algengustu bætur í sakamálum eru miskabætur en með þeim er ætlað að bæta fyrst og fremst fyrir hugræna upplifun tjónþola til skemmri tíma. Hér er því einkum átt við ólögmæta meingerð gegn friði eða frelsi persónu, hvort sem það er með því að valda líkamsspjöllum eða hugrænu tjóni, sem ekki er unnt að slá föstu að hafi varanlegar afleiðingar.

Undir hugtakið líkamstjón samkvæmt lögunum fellur hins vegar bæði tjón vegna líkamsspjalla og tjón vegna hugrænna áhrifa til lengri tíma eða varanlegra áhrifa. Líkamstjóni er aðallega skipt í tvennt, varanlegan miska eða varanlega örorku. Varanlegur miski er skerðing á lífsgæðum mældur eftir stigum, annaðhvort eða bæði vegna líkamlegra og hugrænna óþæginda. Varanleg örorka er skerðing á getu einstaklings til að afla vinnutekna, hvort sem það er vegna líkamlegra eða hugrænna einkenna eða hvors tveggja.

Nú eru liðin ríflega 15 ár frá því að lög nr. 69/1995 tóku gildi og við framkvæmd þeirra hefur margt komið fram sem betur mætti fara. Bætur í sakamálum hafa einnig farið hækkandi á liðnum árum vegna verðlagsþróunar og ýmissa áherslubreytinga í réttarfari. Eru þær fjárhæðir sem takmarka greiðsluskyldu ríkissjóðs og koma fram í 7. gr. laganna því orðnar mjög úr takti við það sem eðlilegt má telja og leiða til þess að í mörgum tilvikum er stór hluti tjóns brotaþola óbættur.

Þegar frumvarp til núgildandi laga var lagt fram var gert ráð fyrir að takmarka greiðslur ríkissjóðs við 5 millj. kr. vegna líkamstjóns og 1 millj. kr. vegna miska. Síðan voru þessar viðmiðunarfjárhæðir lækkaðar verulega þar sem ekki reyndust vera nægilega traustar fjárheimildir til staðar í fjárlögum. Markmiðið með breytingunum nú má einkum rekja til sanngirnissjónarmiða. Í fyrsta lagi er leitast við að bæta stöðu þolenda kynferðisbrota með því að hækka hámarksgreiðslu á miskabótum en stór hluti þeirra sem verður fyrir kynferðisbrotum og fær greiddar miskabætur á grundvelli laganna fær verulegan hluta tjónsins ekki bættan vegna þeirra takmarkana sem eru á fjárhæðum bóta.

Í öðru lagi er leitast eftir því að bæta fremur meira tjón en það sem minna er. Lagt er til að hámarksbætur fyrir líkamstjón, þar með talið fyrir varanlegar afleiðingar fyrir andlega heilsu tjónþola, verði hækkaðar úr 2,5 millj. kr. í 5 millj. kr. og hámarksbætur fyrir miska verði hækkaðar úr 600 þús. kr. í 3 millj. kr. Með því er mætt þeirri þróun sem hefur orðið og breytingum á fjárhæðum bóta auk þess sem leitast er eftir að bæta stöðu þeirra sem fá bætur fyrir miska á grundvelli laganna.

Miskabætur sem ákveðnar hafa verið með dómi í líkamsárásarmálum eru misháar eftir því hver verknaðurinn er en eru oft á bilinu 300–500 þús. kr. Algengar fjárhæðir miskabóta sem ákveðnar hafa verið með dómi í kynferðisbrotamálum hafa verið á milli 1 og 2 millj. kr. Vegna þeirra takmarkana sem nú eru á 7. gr. laga nr. 69/1995 er ljóst að verulegur hluti tjóns vegna kynferðisbrota fellur óbættur. Alla jafna eru bætur vegna varanlegra afleiðinga afbrota svokallaðs líkamstjóns ekki ákvarðaðar með dómi heldur er sótt sérstaklega um greiðslu þeirra úr ríkissjóði að undangengnu læknisfræðilegu mati þar sem tjón liggur oftast ekki að fullu fyrir þegar mál eru til dómsmeðferðar. Það er því lagt fyrir bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995 að taka sjálfstæða afstöðu til bótakrafna á þessum grundvelli.

Þeir sem einkum hafa fengið greiddar bætur vegna varanlegra afleiðinga líkamstjóns eru þolendur líkamsárása en ekki hefur svo kunnugt sé verið farið fram á bætur fyrir varanlegar andlegar afleiðingar kynferðisbrota þótt ætla megi að slíkt tjón geti verið verulegt. Þrátt fyrir að hugtakið líkamstjón feli ekki í sér beina skírskotun til andlegra afleiðinga er rétt að taka fram að það tekur til varanlegs miska og varanlegrar örorku en hvort tveggja getur átt sér andlegar orsakir, ekki síður en líkamlegar. Brotaþolar kynferðisofbeldis ættu því að geta lagt fram kröfu um bætur á grundvelli núgildandi laga hafi þeir orðið fyrir varanlegum miska eða varanlegri örorku vegna brotsins.

Aðrar Norðurlandaþjóðir, svo sem Danmörk og Noregur, hafa sett takmarkanir á greiðslu bóta vegna varanlegs líkamstjóns. Þannig eru ekki greiddar bætur fyrir varanlega örorku samkvæmt dönsku og norsku skaðabótalögunum nema varanleg örorka nái að lágmarki 15%. Í dönsku skaðabótalögunum er þetta lágmark bundið við 5% varanlegan miska en 15% varanlegan miska í norskum lögum. Þessar takmarkanir eru byggðar á því sjónarmiði að ef hlutfall tjóns er ekki meira en sem nemur umræddu lágmarki sé um að ræða tjón sem er óverulegt og hafi því ekki meiri háttar afleiðingar fyrir brotaþola. Lagt er til í frumvarpinu að þetta verði tekið upp og ekki verði greiddar bætur fyrir varanlegan miska nema hann sé að lágmarki 5% og ekki fyrir varanlega örorku nema hún sé að lágmarki 15%.

Ekkert hámark er á greiðslu útfararkostnaðar í lögum nr. 69/1995. Í frumvarpinu er lagt til að bundið verði lágmark við greiðslu útfararkostnaðar sem miðist við 1,5 millj. kr. Er það í samræmi við aðrar takmarkanir á greiðslu ríkissjóðs á grundvelli laganna.

Það nýmæli er að finna í frumvarpinu að hafi einstaklingur sem fær ákvarðaðar bætur sjálfur verið tjónvaldur og myndað ógreidda kröfu á grundvelli laganna sem ríkissjóður hefur til innheimtu skuli draga þá kröfu frá ákvarðaðri fjárhæð bóta. Á hverju ári koma upp nokkur tilvik þar sem einstaklingur sem sækir um bætur hefur sjálfur verið valdur að tjóni annars einstaklings. Erfitt getur verið að réttlæta greiðslur úr ríkissjóði, stundum ítrekaðar, til einstaklinga sem sjálfir valda tjóni á öðru fólki. Er því lagt til í 3. gr. frumvarpsins að þær ógreiddu kröfur sem tjónþola hefur verið gert að greiða á grundvelli laganna verði dregnar frá ákvarðaðri fjárhæð bóta. Bótanefnd verði þá heimilt að gera undantekningu á þessu ef veigamikil rök mæla með því, t.d. ef hættir tjónþola hafa breyst verulega, hann er ungur að árum þegar brotið var framið eða býr við erfiða félagslega stöðu.

Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að setja leiðbeiningar um greiðslu á lögmannskostnaði og meðal annars binda hann við tiltekna fjárhæð. Skal fjárhæðin meðal annars taka mið af viðmiðunarreglum dómstólaráðs. Reglur þessar skal endurskoða með tilliti til þróunar verðlags og þróunar í réttarfari. Almennt er ríkissjóður bundinn af ákvörðun dóms um þóknun til lögmanns en rétt þykir að takmarka þessa fjárhæð þó með tilliti til þess sem sanngjarnt þykir. Ekki er gert ráð fyrir að tjónþoli þurfi aðstoð lögmanns við að setja fram kröfu sína en langflest mál sem berast bótanefndinni koma þó frá lögmönnum, hvort heldur sem það er á grundvelli réttargæslustarfa eða að lögmaðurinn hefur verið ráðinn sem talsmaður brotaþola. Ekkert hámark er á þessum kostnaði þar sem bótanefnd er almennt bundin við ákvörðun dóms um fjárhæð bóta. Hefur þessi liður farið hækkandi á liðnum árum.

Þá er lagt til í 5. gr. frumvarpsins að endurkröfur ríkissjóðs samkvæmt 1. mgr. skuli vera aðfararhæfar. Þegar bætur eru greiddar á grundvelli laganna eignast ríkissjóður endurkröfurétt á hendur þeim sem valdur er að tjóninu. Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar hefur annast innheimtuna fyrir hönd ríkissjóðs. Með því að gera endurkröfur aðfararhæfar er unnt að bæta og flýta innheimtuferlinu verulega og auka líkur á endurheimtum. Þar sem takmarkanir á greiðslum ríkissjóðs geta valdið því að brotaþoli fær aðeins hluta tjóns síns bættan er lagt til að tekin verði upp sú nýjung að bótanefnd geti falið innheimtuaðila í umboði brotaþola að annast innheimtu þess sem ekki fæst greitt úr ríkissjóði. Hingað til hafa brotaþolar þurft að sækja þær bætur sem eru umfram þá upphæð sem ríkissjóður greiðir beint til brotamanna. Er þetta lagt til með það í huga að erfitt getur verið að leggja á brotaþola að innheimta sjálfir eftirstöðvar bóta úr hendi brotamanna. Lagt er til að þetta eigi þó aðeins við um kröfur sem ákveðnar hafa verið með dómi og falla undir 1. mgr. 11. gr. laganna. Þá verði heimilt að taka hóflegt gjald fyrir umrædda þjónustu sem ákveða skal nánar í reglugerð.

Með framangreindum breytingum á lögum nr. 69/1995 er áætlað að nær allir þeir sem eiga rétt á greiðslu miskabóta úr ríkissjóði fái þær greiddar að fullu miðað við núverandi dóma og ákvarðanir. Eins og áður hefur komið fram er með frumvarpinu lagt til að ekki verði greiddar bætur fyrir varanlegan miska nema hann sé að lágmarki 5%. Flestir sem skila inn matsgerð sem byggir á því að þeir hafi orðið fyrir varanlegum miska ná að lágmarki 5% varanlegum miska. Lítill hluti þeirra sem fær ákvarðaðar bætur fyrir varanlegan miska fellur því út með þessum breytingum. Með því að sett verði lágmark sem miðast við að varanleg örorka nemi hið minnsta 15% til að greiðsla bóta komi til greina mun þeim tilvikum þar sem greiddar eru bætur fækka. Miðað við þau mál sem bótanefnd afgreiddi á 36 mánaða tímabili frá 2009 til 2011 má greina að ríflega helmingur krafna um bætur fyrir varanlega örorku er 10% eða minni. Um það bil þriðjungur er vegna varanlegrar örorku sem er 7% eða minni. Fáar kröfur byggja á því að tjónþoli hafi orðið fyrir 10–15% varanlegri örorku. Í þeim tilvikum þar sem 15% varanlegri örorku er náð er hún oftast mun hærri; 30–40% eða upp í 75%.

Þrátt fyrir að æskilegt væri að ríkissjóður gæti ábyrgst allt tjón sem fellur undir gildissvið laganna eru rök fyrir því þar sem fjárhagur ríkisins er ekki með besta móti að bæta heldur meira tjón en minna. Með þessu frumvarpi er reynt að koma til móts við þá gagnrýni sem það lagaumhverfi er varðar greiðslur ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota hefur sætt en á sama tíma er ekki stofnað til mikilla útgjalda fyrir ríkissjóð. Áætluð heildarútgjaldaaukning vegna breytinga á lögunum er talin nema 5–10 millj. kr. árlega. Er þetta sett fram með þeim fyrirvara að mál verði svipuð að fjölda og umfangi og síðustu tvö til þrjú ár.

Hæstv. forseti. Ég hef hér gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins. Ég tel að í frumvarpinu sé stigið mikilvægt skref til aukins réttlætis og jöfnuðar fyrir þá brotaþola sem eiga rétt á greiðslu bóta á grundvelli laganna, einkum brotaþola kynferðisofbeldis sem hafa borið skarðan hlut frá borði í þessum efnum.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.