140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

tekjustofnar sveitarfélaga.

633. mál
[22:02]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga.

Með frumvarpinu er lagt til að tekinn verði allur vafi af um að öll hesthús ber að flokka sem eignir sem falla undir lægra fasteignagjald. Frumvarpið felur í sér að ekki skipti máli hvar hesthús eru staðsett á bújörðum eða í þéttbýli, þau beri að meðhöndla eins og þegar kemur að því hjá sveitarfélögum að leggja á fasteignaskatta.

Mál þetta á sér nokkurn aðdraganda. Landssamband hestamanna hefur um talsvert skeið bent stjórnvöldum á þörfina fyrir því að lögin um tekjustofna sveitarfélaga séu skýrð hvað þetta varðar og öll hesthús séu flokkuð eins innan sama sveitarfélags. Landssambandið upplýsti samgönguráðuneytið á sínum tíma um samskipti sín við Samband íslenskra sveitarfélaga um þessi atriði á árunum 2008 og 2009 og sjónarmið landssambandsins þar að lútandi. Erindi landssambandsins var sent til umfjöllunar í tekjustofnanefnd sem starfaði á árinu 2010. Í kjölfarið lagði nefndin til að við heildarendurskoðun laga um tekjustofna sveitarfélaga yrði hugað að þessum atriðum og m.a. leitast við að eyða óvissu um þau og önnur er varða ákvörðun um flokkun fasteigna við álagningu fasteignaskatta. Nefndin tók í sjálfu sér ekki afstöðu til þess í hvaða flokk, samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, hesthús utan bújarða ættu að falla en taldi engu síður að slíkt þyrfti að vera skýrt í lögum.

Slík heildarendurskoðun tekjustofnalaga hefur ekki farið fram og því hefur mál þetta ekki verið til umfjöllunar í því sambandi. Hins vegar kom nýr flötur upp á málinu þegar yfirfasteignamatsnefnd kvað upp úrskurð á síðasta ári um þetta álitaefni, þ.e. hvort hesthús á deiliskipulögðu hesthúsasvæði í þéttbýli skyldu við álagningu fasteignaskatts vera flokkuð undir a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna eða c-lið sama ákvæðis. Niðurstaða yfirfasteignanefndar var sú að fella beri slíkt húsnæði undir c-lið fasteignagjalda, þ.e. undir hærri gjaldflokkinn. Óumdeilt er þó að hesthús á bújörðum flokkast áfram undir a-liðinn og fá því lægra fasteignagjald.

Í kjölfar úrskurðarins ákvað Reykjavíkurborg að breyta framkvæmd sinni á þann veg að ekki var lengur miðað við að álagning fasteignaskatts á hesthús væri samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna, eins og áður hafði verið, heldur c-lið. Breytingin vakti hörð viðbrögð eigenda hesthúsa í Reykjavík, enda var um umtalsverða skattahækkun að ræða fyrir eigendur eignanna. Af þessu tilefni ritaði Reykjavíkurborg Alþingi bréf þar sem gerð var grein fyrir þeirri skoðun borgarinnar að eðlilegra væri að hesthús væru með skýrum hætti flokkuð samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga eins og verklag borgarinnar hafði verið um árabil.

Frumvarpi þessu er ætlað að tryggja að jafnræðis og samræmis sé gætt innan sama sveitarfélags við álagningu fasteignaskatts á hesthús samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga án tillits til staðsetningar eignanna, auk þess sem tryggt yrði að stofn til álagningar fasteignaskatts á hesthús sé sá sami á landinu öllu.

Því er lagt til í frumvarpinu að álagningarhlutfall fasteignaskatts á hesthús, án tillits til staðsetningar þeirra, sé það sama og þeirra fasteigna sem taldar eru upp í a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna.

Bráðabirgðaákvæði frumvarpsins kveður á um heimild til þeirra sveitarfélaga sem lagt hafa á fasteignaskatt á árinu 2012 að lækka álagningu hvað hesthús varðar þannig að álagningarhlutfall þeirra eigna verði það sama og annarra fasteigna samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr.

Verði frumvarp þetta að lögum mun það leiða til tekjulækkunar fyrir sveitarfélög sé miðað við að öll sveitarfélög sem á yfirstandandi ári hafa lagt fasteignaskatt á hesthús utan bújarða, samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, miði álagningarhlutfall sitt nú við a-lið sama ákvæðis. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga gæti þessi tekjulækkun numið um 55 millj. kr. og munar þar mestu um áhrif breytingarinnar hjá Reykjavíkurborg.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð lengri heldur legg til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.