140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé tímabært að við gerum okkur grein fyrir því að hluti þeirra krafna sem lánastofnanir hafa í bókum sínum vegna skulda fjölskyldna verður ekki innheimtur. Þær kröfur eru tapaðar. Það er sama hvað menn tala mikið um þetta hér, ákveðinn hluti skulda íslenskra heimila í bókum bankanna verður ekki innheimtur.

Í öðru lagi er það viðurkennt, núna síðast af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, að langvarandi skuldavandi heimila hægir á efnahagsbatanum, framlengir með öðrum orðum kreppuna. Hann verður þess vegna að sjálfstæðu efnahagslegu vandamáli.

En við skulum ekki heldur gleyma hinu, að hvorki ríkissjóður né fjölskyldur og heimili í landinu eru eyland. Við getum ekki rekið okkar sameiginlega sjóð með halla langt inn í framtíðina. Við þurfum að hafa heilbrigðan ríkissjóð og við þurfum líka að hafa heilbrigð heimili. Þetta er það verkefni sem blasir við okkur hér.

Við sjálfstæðismenn höfum ásamt fleiri þingmönnum bent á að lyklaleiðin svokallaða gæti verið ein þeirra leiða sem gætu hjálpað þessum skuldsettu heimilum út úr vandræðum sínum. Ég kalla eftir því að stjórnarmeirihlutinn í viðkomandi nefndum taki þessi mál á dagskrá. Við höfum rætt þetta núna í þrjú ár og þetta kemst aldrei nokkurn tíma á dagskrá. Ég skil ekki af hverju þetta hefur ekki fengist betur rætt. Við getum ekki talað okkur út úr þessum erfiðleikum undir liðnum um störf þingsins tvisvar sinnum í viku. Við þurfum að gera okkur grein fyrir þessum vanda og taka á honum þannig að við stöndum undir því sem við gerum en sköpum ekki önnur vandamál í leiðinni.