140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Ég er komin hingað til að hvetja hv. formann allsherjar- og menntamálanefndar til að hraða vinnu við lyklafrumvarpið svokallaða sem ég hef lagt fram á hverju ári frá því að ég kom inn á þing fyrir þremur árum. Ástæðan fyrir því að það liggur á að samþykkja þetta frumvarp er sú að þeir sem hafa farið í greiðsluaðlögun og héldu að það úrræði mundi leysa úr skulda- og greiðsluvanda sínum eru enn að bíða eftir úrlausn, frú forseti, og hrópa nú á samþykkt lyklafrumvarpsins.

Ég vil nefna sögu eins aðila sem hefur verið í greiðsluaðlögunarferli í tvö ár. Nýlega fékk viðkomandi bréf um að greiðsluaðlögunarsamningur yrði ekki gerður nema fasteign fjölskyldunnar færi í sölu og bifreiðin sömuleiðis. Bankinn lofaði viðkomandi einhverri skuldaeftirgjöf en vildi ekki tilgreina upphæðina tveimur árum eftir að viðkomandi fór í greiðsluaðlögun.

Greiðsluaðlögunarúrræðið er ekki að virka, heldur tefur það nauðsynlega skuldaleiðréttingu og brýtur jafnframt niður fólk sem gerði ekkert annað af sér en að fjárfesta í fasteign og bifreið. Lyklafrumvarpið mun fyrst og fremst gagnast þeim sem eru í greiðslu- og skuldaerfiðleikum sem eru innan við 10% af skuldsettum heimilum. Þetta vita fjármálastofnanir og sumar hverjar hafa nú þegar afskrifað skuldir þeirra sem hafa látið af hendi fasteign sína. Sem dæmi má nefna að Íbúðalánasjóður innheimtir ekki kröfur sem engin fasteign er (Forseti hringir.) á bak við.

Frú forseti. Ég hvet meiri hluta þingsins til að hraða vinnslu lyklafrumvarpsins (Forseti hringir.) og samþykkja það hið fyrsta.