140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Hagvísar efnahagslífsins eru margir að færast í rétta átt. Við sjáum að atvinnuleysi fer lækkandi, væntingavísitala almennings hækkar, hagvöxtur er yfir 3% á síðasta ári, kaupmáttur jókst um 5,3% á síðasta ári og fleira mætti telja. En kallað er eftir fjárfestingu í atvinnulífinu. Það er hin vonda ríkisstjórn, eða svo segir stjórnarandstaðan, sem er að drepa allt vegna þess að ekki er ráðist í fjárfestingar.

Eins og þingheimur veit eru ekki miklir peningar til í ríkiskassanum til að fara í umfangsmiklar fjárfestingar af hálfu hins opinbera en hins vegar hafa menn á vettvangi ríkisstjórnar leitað leiða til að koma engu að síður af stað framkvæmdum í þessu landi. Þess vegna var mjög áhugavert að verða vitni að opnum fundi Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins í morgun þar sem hvorki formaður Sjálfstæðisflokksins né fulltrúi Framsóknarflokksins gátu lýst yfir stuðningi við tvær stórar framkvæmdir sem hið opinbera er að reyna að ráðast í á næstu missirum, annars vegar byggingu Landspítala upp á 44 milljarða kr. og svo byggingu Vaðlaheiðarganga. Það eru framkvæmdir upp á samtals rúma 50 milljarða kr. sem hvort tveggja verður fjármagnað annars vegar í gegnum lífeyrissjóðina og hins vegar í gegnum notendagjöld. Fjármögnun þessara verkefna setur sem sagt rekstur ríkissjóðs ekki í uppnám. Þetta eru framkvæmdir sem nýta sér slaka í atvinnulífinu, auka atvinnu, auka veltu, búa til störf fyrir iðnaðarmenn, hönnunargeirann og byggingargeirann sem veitir ekki af því að fái einhverja veltu inn í samfélagið. Þrátt fyrir það gátu fulltrúar stjórnarandstöðunnar á þessum fundi í morgun ekki lýst yfir stuðningi við þessar framkvæmdir. Ég spyr: Setja menn hér hagsmuni stjórnarandstöðunnar framar hagsmunum iðnaðarmanna í þessu landi? [Kliður í þingsal.] Eru menn í klækjapólitík og að reyna að hindra það að ríkisstjórnin nái (Gripið fram í.) árangri í opinberum framkvæmdum í þessu landi? Hvaða hagsmunir ráða för (Forseti hringir.) hjá fulltrúum stjórnarandstöðunnar? (Gripið fram í.) Ætla þeir að styðja okkur í ríkisstjórninni við að (Forseti hringir.) ráðast í framkvæmdir upp á rúmlega 50 milljarða kr. á næstu missirum eða ætla menn að reyna að stöðva þessi mál á vettvangi Alþingis? [Háreysti í þingsal.]