140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég get að sjálfsögðu ekki talað fyrir hönd annarra flokka í stjórnarandstöðu en ég ætla að leyfa mér að fullyrða að Framsóknarflokkurinn styður þessa ríkisstjórn til góðra verka og hefur alltaf gert, sérstaklega til að leysa skuldavanda heimilanna. Hann er í rauninni eini flokkurinn sem barist hefur fyrir því í heild sinni, heill í afstöðu sinni frá upphafi þessa kjörtímabils, það hafa vissulega fleiri þingmenn úr öðrum flokkum tekið undir en enginn stjórnmálaflokkur hefur tekið sömu afstöðu og Framsóknarflokkurinn.

Mér þykir svolítið súrt að heyra hv. þm. Magnús Orra Schram halda því fram fullum fetum að við séum nú þegar farin að tefja byggingu nýs Landspítala. Málið þarf nú í fyrsta lagi að vera komið inn á þing til þess að við getum gert eitthvað í þá veruna. En ég bendi á það eins og aðrir hafa ítrekað sagt að það er þingmeirihluti á Alþingi. Ég vona að meiri hlutinn sé ekki þar með að segja að við stöndum í vegi fyrir málum, að leggja til að mál fái ekki málefnalega og efnislega umfjöllun hér. Um það snýst þetta mál.

Ég hef miklar efasemdir um að Landspítalinn eða forsendur fyrir honum séu réttar og tel að það þurfi að ræða það. Ég hef svo aðra skoðun á Vaðlaheiðargöngum. Ég er þeirrar skoðunar að Vaðlaheiðargöng eigi að fá málefnalega og vandaða umfjöllun í fjárlaganefnd. Ég vil segja stjórnarliðum það til hróss að mér sýnist það vera reyndin. Það er enginn í stjórnarandstöðunni sem ætlar að tefja málið í nefndinni. Ég hef ekki fundið það.

Ég ætlaði mér að ræða reyndar um Evrópusambandið og það löndunarbann sem ESB hefur lagt grundvöllinn að. Ég get sagt það að lokum, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, að stjórnarandstaðan mun ekki standa í vegi fyrir því að ríkisstjórnin mótmæli þessum aðgerðum sérstaklega nú þegar við eigum í (Forseti hringir.) viðræðum um aðild að þessu sama sambandi.