140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

málefni Farice.

[15:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að allir séu sammála um að það sé afskaplega mikilvægt að hafa örugg og góð fjarskipti milli Íslands og annarra landa og til þess var farið í þessa gerð. Það er hins vegar rétt, sérstaklega í ljósi þess hvernig mál hafa þróast, að skoða það og ég hvet hv. fjárlaganefnd til að fara yfir aðdragandann að þessu máli. Þegar menn fóru þessa leið höfðu aðrir aðilar áhuga á því að fara aðra leið sem þeir töldu ódýrari og yki jafnframt möguleika á hraðari gagnaflutningum til stærsta markaðssvæðisins, til Bandaríkjanna.

Ég held að það sé afskaplega mikilvægt þegar menn fara yfir, sem menn hljóta að gera, allar þær forsendur sem nauðsynlegt er að fara yfir áður en menn setja háar fjárhæðir úr ríkissjóði í slíkt verkefni að fara yfir hvort hér hafi verið rétt að málum staðið og menn gert þetta eins skynsamlega og mögulegt var. Sömuleiðis þarf að fara yfir málflutning þeirra sem vildu fara aðra leið. Það var í það minnsta einn aðili og jafnvel fleiri sem töldu skynsamlegra og ódýrara að fara aðra leið, bæði í ljósi kostnaðar eins og ég nefndi en ekki síður vegna þess að þeir töldu hag okkar best borgið með því að leggja meiri áherslu á tengingarnar vestan hafs.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fella neina dóma í þessari stuttu umræðu en geri ráð fyrir að hv. fjárlaganefnd taki þetta mál fyrir og skoði þennan þátt sérstaklega.