140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

málefni Farice.

[15:54]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu. Ég tel að það sé mjög mikilvægt fyrir hv. fjárlaganefnd að skoða forsögu málsins, þ.e. hvers vegna þessi leið var farin en ekki einhver önnur, og þá er ég kannski fyrst og fremst að hugsa um það sem kom fram á þeim tíma. Á þeim tímapunkti var mögulegt að gera samninga við aðra aðila sem voru að mati sumra mun skynsamlegri og ódýrari kostur. (VigH: Rétt.)

Þegar við förum í framkvæmd eins og þessa þar sem gerðar eru áætlanir um það hverjir munu nýta viðkomandi fjárfestingu hlýtur maður að þurfa að spyrja sig hvers vegna ekki eru lagðar fram einhverjar tryggingar af hálfu þeirra félaga sem ætla sér að nýta hana. Það er forsenda þess að fara út í fjárfestinguna.

Það hefur líka komið fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að ekki var hægt að endurskipuleggja fjárhag fyrirtækisins öðruvísi en að fá á það ríkisábyrgð. Ég vil líka gera hér að umtalsefni hvernig þetta mál kemur að þinginu. Kannski er enn og aftur ástæða fyrir hv. þingmenn og hæstv. ráðherra að gera sér grein fyrir því að þegar búið er að setja á ríkisábyrgð er hún orðin virk. Það þýðir ekki að vona að hún muni ekki koma til einhverra hluta vegna.

Hv. fjárlaganefnd er upplýst um það tveimur dögum áður en þarf að greiða þessar 355 millj. kr. út úr ríkissjóði að þetta sé í vændum. Það eru algerlega óþolandi vinnubrögð að menn hafi ekki betri og meiri yfirsýn yfir það sem er að gerast. Það þarf líka að skoða sérstaklega hvenær þetta kemur fram og stjórnvöldum er kunnugt um að þetta gæti hugsanlega orðið. Það getur ekki gerst í sumu vikunni að menn geri sér grein fyrir því að nú þurfi að fara að gera samning um 355 millj. kr. án þess að það hafi einhvern aðdraganda. Það getur ekki (Forseti hringir.) verið.