140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

málefni Farice.

[15:59]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Farice hf. var stofnað árið 2002 til að leggja og reka Farice 1 sæstrenginn sem liggur milli Íslands, Færeyja og Skotlands og var í sameiginlegri eigu íslenskra og færeyskra aðila, þar með talið íslenska ríkisins. Íslenska ríkið hefur alltaf verið stór hluti félagsins og ég bendi hv. þingmönnum Framsóknarflokksins á að aðrir en Samfylkingin voru í ríkisstjórn þegar þetta ævintýri (VigH: …ráðherra.) fór allt af stað. Ísland byggir nútíð sína sem og framtíð á upplýsingatækni. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur og hagkerfi okkar að hafa öruggar tengingar við umheiminn. Það væri mikil áhætta tekin ef landið yrði sambandslaust. Þar eru hagsmunir almennings undir, en þar er einnig undir hlutverk strengsins við að draga að nýja atvinnustarfsemi. Við þurfum ekki aðeins að tryggja samband í gegnum strenginn til Skotlands og Danmerkur, heldur einnig þaðan og áfram. Það er einmitt Evrópa sem er stóra markaðssvæðið fyrir Ísland.

Rekstrarfé vantaði og þjónustusamningurinn gengur út á að sinna lágmarkshagsmunum almennings. Þegar tekjur aukast minnkar framlag til þjónustusamningsins. Ríkisábyrgð er ekki virkjuð nema lánið falli á ríkið. Núna er aðeins verið að nýta brot af flutningsgetu og því minnka tekjumöguleikar án mikilla fjárfestinga.

Emerald strengurinn sem hv. þingmenn hafa nefnt í umræðunni er algjörlega framtak einkaaðila. Ef hann kemur er það eitt og sér fagnaðarefni fyrir fjarskiptaöryggi Íslands. Ljóst má þó vera að hann yrði eingöngu lagður af þeim aðilum sem tekst að tryggja örugga notkun hans, t.d. með nýjum gagnaverum, og slík (Forseti hringir.) gagnaver yrðu að öllum líkindum einnig viðskiptavinir Farice rekstraröryggisins vegna.