140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

matvæli.

138. mál
[16:04]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í sínum miklu önnum hefur atvinnuveganefnd nú lokið umfjöllun um þetta mál og það hefur að mínu mati verið prýðilega unnið frá upphafi. Við höfum farið yfir mjög mörg álitamál sem komu upp, og sannast sagna komu þau upp og kannski okkur nokkru að óvörum þegar við fórum yfir þetta. Ég trúi því að núna sé búið að færa lagaumhverfið til þess horfs sem ég er fullviss um að hefur ævinlega vakað fyrir þingmönnum að það ætti að vera; að tryggja að basarar og kökubakstur og annað þess háttar sem hefur verið hluti af hinu almenna frjálsa félagastarfi í landinu geti haldið áfram með eðlilegum hætti. Þess vegna er ástæða til að fagna frumvarpinu og styðja það eins og það lítur út núna eftir breytingartillögu atvinnuveganefndar.