140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 76/2011 um breytingu á VI. viðauka við EES-samninginn.

583. mál
[16:11]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá utanríkismálanefnd um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 76/2011, um breytingu á VI. viðauka (Félagslegt öryggi) við EES-samninginn.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 76/2011, frá 1. júlí 2011, um breytingu á VI. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992.

Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 1. janúar 2012. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.

Þær reglugerðir, ákvarðanir og tilmæli sem hér um ræðir kveða á um rétt til almannatrygginga við frjálsa för milli aðildarríkjanna.

Innleiðing reglugerða EB nr. 883/2004, nr. 988/2009 og nr. 987/2009 og ákvarðana og tilmæla framkvæmdaráðs um samræmingu almannatryggingakerfa kalla á lagabreytingar hér á landi á fleiri en einum lagabálki. Um er að ræða breytingar á lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, nr. 100/2007, um almannatryggingar, nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof. Fyrirhugað er að velferðarráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á framangreindum lagabálkum á yfirstandandi löggjafarþingi.

Reglugerð EB nr. 883/2004 kveður á um rétt til almannatrygginga við frjálsa för milli aðildarríkjanna og kemur í stað reglugerðar ráðsins nr. 1408/71. Ein meginbreyting reglugerðarinnar er að persónulegt gildissvið hins tryggða er rýmkað frá núgildandi reglugerð. Samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 883/2004 tekur hún einnig til einstaklinga sem ekki hafa verið á vinnumarkaði. Réttarástand hér á landi er í samræmi við reglugerðina og því er ekki búist við miklum kostnaðarauka vegna þessa þar sem einstaklingar sem ekki eru á vinnumarkaði eru þegar tryggðir hér á landi.

Í reglugerð EB nr. 987/2009 er megináhersla lögð á að framkvæmd almannatrygginga milli aðildarríkjanna og stofnana þeirra verði sem mest rafræn. Undirbúningur hjá þeim stofnunum sem hlut eiga, þ.e. Tryggingastofnun ríkisins, Sjúkratryggingum Íslands, Vinnumálastofnun, lögbundnum lífeyrissjóðum og ríkisskattstjóra, er kominn langt á leið en sá undirbúningur er jafnframt í samræmi við stefnu stjórnvalda um rafræna stjórnsýslu.

Að öðru leyti, frú forseti, vitna ég til nefndarálitsins.

Undir þetta skrifa hv. þingmenn Árni Þór Sigurðsson, formaður, Árni Páll Árnason, framsögumaður, Bjarni Benediktsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Mörður Árnason, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og sú sem hér stendur.