140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

lögreglulög.

739. mál
[16:34]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, við munum reyna að sjá til þess að allar fjárhagslegar upplýsingar liggi fyrir. Eins og hér hefur komið fram gerum við ráð fyrir að þessar kerfisbreytingar verði að veruleika í upphafi árs 2015, þannig að við höfum góðan tíma til að skoða þau mál. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að fjárhagslegur ávinningur af skipulagsbreytingum sé iðulega heldur minni en menn stundum vilja gefa sér. Ég held að ávinningurinn sé fyrst og fremst í því að skapa öflugri stjórnsýslueiningar, í því liggi ávinningurinn.

Ég ítreka að það er mikilvægt að þessar upplýsingar komi fram og þá einnig tilkostnaður sem kann að tengjast breytingum á lífeyrisréttindum sem ég hef litið svo á að væri óaðskiljanlegur hluti þessa pakka. Það er atriði sem er enn í umræðu og við eigum eftir að leiða til lykta til með Landssambandi lögreglumanna og öðrum hlutaðeigandi aðilum. Hér er sem sagt komin löggjöfin sem ég tel mjög mikilvægt að fá núna inn í allsherjarnefnd og hún gangi til umsagna. Ég sé það fyrir mér að við reynum síðan að ljúka málinu í haust. Mér finnst ekki ráð að hlaupa í þessar lagabreytingar á mjög skömmum tíma, við skulum gefa okkur góðan tíma og reyna að ljúka málinu í haust.