140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

lögreglulög.

739. mál
[17:09]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einmitt þetta sem hv. þm. Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson nefndi hérna er það ég kom að í upphafi míns máls, að við höfum dálítið vonda reynslu af ýmsu því sem menn hafa verið að gera í þessum svokölluðu sameiningum sem menn kalla síðan hagræðingu. Mér hefur oft fundist að við landsbyggðarfólkið séum sett í óþægilega stöðu. Það er komið fram með alls konar hugmyndir sem menn segja að muni leiða til sparnaðar. Það mun síðan leiða til fækkunar opinberra starfsmanna á landsbyggðinni, það dregur úr þjónustunni til lengri og skemmri tíma og við erum sett í þá stöðu að sagt er við okkur: Jæja, viljið þið ekki spara í ríkisrekstrinum?

Það er ekki þannig að við á landsbyggðinni séum á móti því að reyna að draga úr kostnaði þar sem hægt er að koma því við. Við viljum þó í fyrsta lagi gera þá kröfu að það sé gert af sanngirni, að það sé ekki bara skorið niður á landsbyggðinni, ekki bara sagt að það eigi að spara þar.

Það kemur fram í greinargerð annars þessara frumvarpa að tölvutæknin hafi gert það að verkum að menn geti þess vegna verið meira og minna með sína starfsemi alla á höfuðborgarsvæðinu. Að sumu leyti hafa menn einmitt notað öfugt þessa nýju tölvutækni sem við héldum einu sinni að mundi færa okkur ný tækifæri í byggðamálum vegna þess að þá væri hægt að færa verkefnin út á land. Menn hafa snúið þessu við og sagt: Heyrðu, við erum með svo fína tölvutækni, þið getið notið þessara góðu fjarskipta og þess vegna getið þið bara verið á ykkar svæðum í Borgarfirði eða Bolungarvík, á Austfjörðum eða einhvers staðar annars staðar, verið sallaróleg og verið bara í tölvusamskiptum við þá sem eru í Reykjavík og ráða þessu öllu.

Þetta er ekki sú staða sem við viljum láta setja okkur í. Við viljum nota þessa nýju tækni og þessi nýju tækifæri til að færa verkefnin út á landsbyggðina. Dæmið sem hv. þingmaður nefndi er eitt af þessum sporum sem hræða. Auðvitað ætla menn ekki með þessu frumvarpi, geri ég ráð fyrir, að draga úr þjónustu löggæslunnar. Menn telja sig væntanlega ætla að skipuleggja löggæsluna. Það eru hins vegar þessi dæmi sem við sjáum sem hræða eins og sporin í þessum efnum.